Töluverður fjöldi hefur nú þegar sótt um námslán hjá nýjum lánasjóði námsmanna sem kallast Framtíðin og er fjármagnaður af GAMMA. Stjórnarformaður sjóðsins segir LÍN þó alltaf eiga að vera fyrsta kost námsmanna. Hins vegar dugi þau lán ekki alltaf til.
Framtíðin er nýr námslánasjóður sem hóf göngu sína í lok febrúar og veitir háskólanemum bæði framfærslu- og skólagjaldalán. Allir námsmenn sem ætla í háskólanám á Íslandi eða erlendis geta sótt um námslán hjá Framtíðinni. Einnig er starfsnám, endurmenntun og nám með vinnu á Íslandi lánshæft. „Sjóðurinn hefur mælst mjög vel fyrir og námsmenn hafa tekið vel þessum nýja valkosti til fjármögnunar háskóla,“ segir Hlíf Sturludóttir, formaður sjóðsins.
Hámarkslán er þrettán milljónir, en lágmarkið 500 þúsund og er endurgreiðslutíminn tólf ár. Byrjað er að greiða lánin til baka einu ári eftir að námi er lokið.
Framtíðin býður upp á tvær tegundir námslána, annars vegar óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og hins vegar verðtryggð lán með föstum vöxtum.
Á því óverðtryggða eru 9,75% vextir á meðan einstaklingar eru í námi en 8,75% vextir að því loknu. Á því verðtryggða með föstum vöxtum eru 7,45% vextir á meðan námi stendur en 6,45% að því loknu. Auk þess greiða lántakar 3,0% lántökugjald sem leggst við höfuðstól lánsins
Á verðtryggðum lánum frá LÍN eru 1% vextir og hefjast endurgreiðslur tveimur árum eftir námslok. Lántökugjald er 1,2%.
Aðspurð hvaða hvati ætti að vera fyrir námsmenn að sækja fremur um lán hjá Framtíðinni heldur en LÍN sökum hærri vaxta segir Hlíf að LÍN ætti alltaf að vera fyrsti valkostur námsmanna. „Lánin hjá LÍN duga hins vegar ekki alltaf til og þá eiga námsmenn kost á að leita til Framtíðarinnar. Framtíðin er alls ekki hugsuð þannig að hún eigi að koma í staðinn fyrir LÍN heldur er hugsunin sú að námsmenn eigi kost á þeim möguleika á að fá aukalán hjá Framtíðinni ef námslán frá LÍN duga ekki til eða henta ekki aðstæðum,“ segir hún.
Innt eftir því hvort Framtíðin sé komin í samkeppni við LÍN segir hún svo alls ekki vera. „Lán Framtíðarinnar koma til þegar lán frá LÍN duga ekki til eða standa ekki til boða, t.d. vegna tekna eða námsframvindu,“ segir Hlíf en tekjur hafa ekki áhrif á lán Framtíðarinnar.
Hlíf bendir á að aðstæður námsmanna séu mismunandi og LÍN þjóni ekki öllum og þar á meðal hluta þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði eða hyggja á kostnaðarsamt lán erlendis. „Framtíðin er t.d. fyrir þá sem ekki fá fullnægjandi lán frá LÍN til að framfleyta fjölskyldu sinni á meðan námi stendur, fyrir þá sem hyggja á kostnaðarsamt nám erlendis sem fellur utan skólagjaldaramma LÍN eða þá sem lenda í tekjuskerðingu LÍN vegna þess að þeir hafa verið á vinnumarkaði,“ segir hún.
Hlíf segir ekkert þak vera á útlánum en stærð sjóðsins mun fylgja eftirspurn eftir þessum lánum. „Áætlanir okkar miðast við að lána nokkur hundruð námsmönnum á ári,“ segir Hlíf.
Framtíðin er fjármögnuð í gegnum skuldabréfasjóði sem eru í stýringu hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA. Síðar er stefnt að fjármögnun með útgáfu skuldabréfa sem skráð verða í kauphöll. Að baki skuldabréfasjóðunum standa öflugir stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir og tryggingafélög, eignastýringar og almennir fjárfestar.