Gengi evrunnar hefur ekki verið lægra gagnvart Bandaríkjadal í ellefu og hálft ár, en evran fór undir 1,09 dali við lokun markaða í Evrópu í gær.
Meginástæðan fyrir falli evrunnar er talin vera sú að nú styttist í að magnkaup Evrópska seðlabankans á skuldabréfum hefjist, á sama tíma og auknar líkur eru taldar á því að vextir í Bandaríkjunum fari hækkandi. Jákvæðar tölur um þróun atvinnuleysis vestanhafs, sem birtar voru í gær, styrktu þá trú markaðsgreinenda að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hefja vaxtahækkunarferil jafnvel um mitt árið.