Prentvélar ræstar við fögnuð fjárfesta

Fjárfestar hafa haft ærna ástæðu til að fagna undanfarin misseri …
Fjárfestar hafa haft ærna ástæðu til að fagna undanfarin misseri enda hafa hlutabréfavísitölur víða tekið kipp. AFP

Þær aðgerðir sem seðlabankar margra ríkja hafa gripið til á undanförnum árum, í glímunni við afleiðingar fjármálahrunsins, eiga sér engin fordæmi í sögunni. Þær hafa að mörgu leyti skilað sínu og meðal annars leitt til þess að hlutabréfavísitölur víða um heim eru um þessar mundir í sínum hæstu gildum.

Þetta kom fram í máli Vignis Þórs Sverrissonar, fjárfestingastjóra hjá VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanki, á upplýsingafundi VÍB um stöðu erlenda markaða sem haldinn var á þriðjudaginn.

Seðlabanki Bandaríkjanna reið á vaðið eftir hrun fjármálakerfisins og greip til svokallaðrar magnbundinnar íhlutunar (e. quantitative easing). Vignir Þór sagði að það væri mjög óhefðbundin aðgerð, eins konar hagfræðilegt tilraunaverkefni, sem hefði það að markmiði að lækka vexti og koma hjólum efnahagslífsins í gang. Í afar einföldu máli fælist aðgerðin í því að seðlabanki prentaði peninga og keypti skuldabréf á markaði og af fjármálastofnunum. Það leiddi til lægri vaxta sem yki hagvöxt og einkaneyslu. Þar með yrðu fólk og fyrirtæki viljugri en ella til að taka ný lán og endurnýja önnur gömul á betri kjörum.

„Hugmyndin gengur út á að skapa hagvöxt,“ sagði Vignir Þór.

Markmiðið að halda hlutabréfaverði uppi

Hann benti á að aðgerðin hefði skilað árangri og að það væri ekki að ástæðulausu að fleiri seðlabankar, til að mynda Seðlabanki Japans og Evrópski seðlabankinn, hefðu ákveðið að grípa til viðlíkra aðgerða. Ekki er mjög langt síðan Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, tilkynnti að bankinn hugðist ræsa prentvélarnar og kaupa skuldabréf á markaði fyrir mörg hundruð milljarða evra. Fjárfestar kættust í kjölfarið og markaðir tóku kipp.

Vignir Þór sagði athyglisvert að þegar tilkynnt var um að Bandaríkjamenn hygðust draga úr aðgerðum sínum, þar á meðal magnbundinni íhlutun, þá lækkuðu hlutabréfavísitölur þar í landi.

„Hvert er markmið seðlabankans með þessari aðgerð?“ spurði Vignir Þór og vísaði í kjölfarið til ummæla Bens Bernanke, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna, sem hefur sagt að markmiðið væri meðal annars að halda uppi hlutabréfaverði og búa þannig til auðsáhrif sem smituðust út í þjóðfélagið. „Vandamálið er hins vegar það að auðsáhrifin eru mjög misskipt,“ sagði Vignir Þór.

Og svo fór að seðlabankastjóranum tókst ætlunarverk sitt. Hlutabréf hafa hvergi hækkað eins mikið í verði frá árinu 2008 og einmitt í Bandaríkjunum.

„Óeðlilegt ástand“

Eins hafa vextir lækkað á heimsvísu, þar á meðal á ríkisskuldabréfum, eins og seðlabankarnir ætluðu. Vextir á ríkisskuldabréfum nokkurra ríkja, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð og Sviss, hafa lækkað svo verulega að þeir eru orðnir neikvæðir.

Seðlabanki Danmerkur hefur, eins og kunnugt er, lækkað stýrivexti sína umtalsvert undanfarna mánuði og eru þeir nú neikvæðir um 0,75%. Danskar lánastofnanir sem lána fólki fé til fasteignakaupa hafa nú í fyrsta sinn í sögunni þurft að greiða lántakendum vexti ofan á lánin sem lántakendur tóku hjá þeim.

„Fjárfestar eiga ekki að vera vanir núll prósent eða jafnvel neikvæðum vöxtum. Það er óeðlilegt ástand. Að fá borgað til að fá lán er að öllu leyti óeðlilegt ástand,“ sagði Vignir Þór.

Krossa fingur og vona það besta

Önnur afleiðing þessara aðgerða sem seðlabankar hafa gripið til er sú að efnahagsreikningar bankanna hafa blásið út. Fram kemur í greiningu VÍB að efnahagsreikningur Evrópska seðlabankans sé um 18,8% af þjóðarframleiðslu á svæðinu, í Bandaríkjunum er hlutfallið tæplega 27% og í Japan hefur efnahagsreikningur seðlabankans blásið svo mikið út að hlutfallið er komið upp í 54,2%.

Vignir Þór nefndi að gagnrýnendur magnbundinnar íhlutunar hefðu bent á að verið sé að kasta peningum upp í loftið og einfaldlega vona það besta - krossa fingur. Seðlabankar hafi ræst prentvélarnar og peningamagn í umferð í kjölfarið aukist. Það ætti alla jafna að skili sér í aukinni verðbólgu.

„Markaðurinn var að kalla eftir frekari aðgerðum seðlabanka. Það verður því sjokk fyrir marga þegar aðgerðirnar hætta, vextirnir fara að hækka og í hækkandi vaxtaumhverfi getur hagkerfið kólnað hratt,“ sagði Vignir Þór.

Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingarstjóri hjá VÍB, flutti erindi á fundinum.
Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingarstjóri hjá VÍB, flutti erindi á fundinum. mbl.is/Eggert
Vel var mætt á fundinn sem haldinn var í höfuðstöðvum …
Vel var mætt á fundinn sem haldinn var í höfuðstöðvum Íslandsbanka við Kirkjusand. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka