Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður, gagnrýnir harðlega nýlegar aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að þrengja að erlendum aflandskrónueigendum til að búa í haginn fyrir losun hafta.
Hún segir að afnám hafta sem felist í því að „veita hrægammasjóðum og öðrum kröfuhöfum ríkisábyrgð á froðueignum og ávöxtun umfram verðbólgu“ sé á kostnað almennings og því algjörlega óásættanlegt.
Eins og fram hefur komið var undanþágulistum og reglum Seðlabankans vegna gjaldeyrismála breytt á föstudaginn til þess að búa í haginn fyrir frekari skref að losun fjármagnshafta hér á landi. Undanþágulisti bankans takmarkast nú við ríkisvíxla og eitt ríkisskuldabréf (RIKB 15 0408) og hefur flokkum fjármálagerninga á listanum því fækkað með þessari breytingu.
Á Facebook-síðu sinni bendir Lilja á að aflandskrónueigendum gefist nú aðeins kostur á að fjárfesta í stuttum ríkisskuldabréfum sem bera um 4,5% ávöxtun. „Þetta verður að teljast afar góð ávöxtun í ljósi þess að innlánsvextir almennings eru nú 0,5% og verðbólga um 0,8%. Eins og sagt er „sumir eru jafnari en aðrir“,“ segir hún.
„Hafa verður í huga að aflandskrónuvandinn skapaðist vegna þess að gömlu bankarnir gáfu út hávaxtabréf (sbr. jöklabréf) og töpuðu síðan peningunum í hruninu sem áhættufjárfestar greiddu fyrir bréfin. Þeir sem þekkja tvöfalt bókhald og eðli kapitalismans vita að afskrifa hefði átt stærstan hluta aflandskrónueignanna eftir hrun, þar sem þessir peningar gufuðu upp í hruninu. Það var ekki gert og bætt um betur með því að launa aflandskrónueigendunum með hærri ávöxtun á froðukrónunum sínum en hægt er að fá í öðrum löndunum,“ segir hún.
Hún bendir jafnframt á að auk þess hafi aflandskrónueigendum verið leyft að fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Það þýði í raun að verið sé að umbreyta einkaskuldum gömlu bankanna í skuldir skattgreiðenda. „Þjóðinni er ætlað að blæða – aflandskrónueigendum að græða.“
Frétt mbl.is: Búið í haginn fyrir losun hafta