Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, telur að leggja ætti að lágmarki 60 til 70 prósent útgönguskatt á kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna. „Að tala um eignaupptöku hjá hrægömmum, eins og heyrst hefur, þegar komið er í veg fyrir að þeir gangi út með ránsfeng sinn er náttúrlega eins og hvert annað grín,“ skrifar Ögmundur í nýrri færslu á bloggsíðu sinni.
Í færslunni, sem ber heitið „Við eða hrægammarnir?“, vísar Ögmundur til frétta af því að vogunarsjóður í eigu George Sorosar hafi keypt 44 milljarða króna kröfur í þrotabú Glitnis af Burlington Loan Management. „Sagt er að hann hafi keypt á genginu 27-29% af nafnvirði. Það þýðir að hann hafi sett í kaupin 13 milljarða króna og vonist til að græða í áttina að 30 milljörðum króna.“
Þetta segir hann vera eignaupptöku á kostnað íslensks samfélags sem fengið hefur að blæða illilega vegna hrunsins og vísar til fyrri fregna af vogunarsjóðum sem keytu kröfur á um 4% af nafnvirði þeirra og vonast til þess að ganga út með 96% í eigin vasa. „Eða hvers vegna ættu þeir allra séðustu sem keyptu kröfur á 4% af nafnvirði að geta gengið út með fullar endurheimtur? En jafnvel þótt þeir fengju aðeins brotabrot af nafnvirði fjárfestingarinnar væri gróði þeirra eftir sem áður gríðarlegur. Sá sem kaupir á 4% af nafnvirði en selur á 27% og þyrfti síðan að greiða 70% skatt græðir 100% - tvöfaldar með öðrum orðum fjárfestingu sína,“ skrifar Ögmundur.
„Þegar skattprósentan verður ákveðin verður spurningin á hvora sveifina stjórnvöld ætla að leggjast, með hrægömmunum eða þjóðinni?“
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á dögunum að engin ákvörðun lægi fyrir um útgönguskatt og að stjórnvöld hefðu engar tölur nefnt í því sambandi.