Maríanna Jónasdóttir hefur ákveðið að draga framboð sitt til stjórnar VÍS til baka. Í tilkynningu sem Maríanna sendi VÍS í dag kemur fram að ákvörðunin sé tekin í kjölfar umræðu sem framboð hennar hafi skapað og að höfuðmáli skipti fyrir hag hvers fyrirtækis að trúverðugleiki ríki um stjórn þess.
Samkvæmt samþykktum Vátryggingafélags Íslands hf. skipa fimm einstaklingar aðalstjórn félagsins. Það verður því sjálfkjörið í aðalstjórn félagsins.
Í stjórninni sitja Ásta Dís Óladóttir, Bjarni Brynjólfsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Helga Jónsdóttir og Steinar Þór Guðgeirsson. Þar sem einungis tveir hafa boðið sig fram til varastjórnar félagsins er ljóst að þeir eru einnig sjálfkjörnir.
Fréttablaðið vakti athygli á því í morgun að það gæti vakið upp spurningar um hagsmunaárekstra ef Maríanna hlyti kjör til stjórnar. Maríanna er skrifstofustjóri skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en líkt og önnur tryggingafyrirtæki lýtur VÍS eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins kom fram að starfsfólki á skrifstofum efnahagsmála og lögfræðisviðs væri ekki heimilt að taka sæti í stjórnum eftirlitsskyldra aðila. Að öðru leyti gildi ekki takmarkanir umfram það sem kveðið er á um í starfsmannalögum um trúnaðarskyldur og aukastörf.