ORF Líftækni, Carbon Recycling International (CRI) og Kerecis hafa verið tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna sem afhent verða á Íslenska þekkingardeginum þann 20. mars.
Yfirskrift verðlaunanna er: verðmætasköpun með óhefðbundinni nýtingu auðlinda. Við valið var haft til hliðsjónar hvernig fyrirtækin hafa í krafti nýsköpunar fundið og þróað leiðir til að bæta nýtingu á auðlindum landsins með því að búa til nýjar afurðir úr verðlitlum efnivið sem að fellur til við hefðbundna nýtingu, segir í fréttatilkynningu frá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
„ORF Líftækni hf. er leiðandi líftækni fyrirtæki sem hefur þróað nýstárlega aðferð til að framleiða verðmæt, sérvirk prótein sem eru notuð í húðvörur og til líf- og læknisfræðirannsókna víða um heim. Aðferðin er afrakstur öflugs vísinda- og þróunarstarfs hjá fyrirtækinu undanfarin ár og byggir á því að nota fræ byggplöntunnar sem smiðju fyrir þessi prótein.
Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtæki þess starfa nú um 40 starfsmenn, langflestir háskólamenntaðir,“ segir á vef fyrirtækisins.
„Carbon Recycling International (CRI) nýtir koltvísýringsútblástur og breytir honum í endurnýjanlegt metanól (RM). Endurnýjanlegt metanól er hreint eldsneyti sem blanda má við bensín til að uppfylla kröfur um hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum. Við framleiðsluna er fangaður koltísýringur sem lágmarkar losun frá jarðvarmavirkjun.
Endurnýjanlegu metanóli má blanda við bensín til notkunar í samgöngum. Framleiðsla á endurnýjanlegu metanóli er áhugaverður valkostur víða um heim þar sem nýta má endurnýjanlegt rafmagn frá jarðvarma, vind- og sólarorku. CRI áformar byggingu verksmiðja til framleiðslu endurnýjanlegs metanóls, bæði hér á landi sem og í öðrum löndum Evrópu,“ segir á vef fyrirtækisins.
Kerecis er lækningavörufyrirtæki á Ísafirði sem framleiðir og markaðssetur stoðefni til sárameðhöndlunar og vefjaviðgerðar, unnið úr þorskroði.