Núvirðingarprósenta lífeyrissjóða, 3,5%, sem er notuð til að núvirða eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum er ekki krafa um raunávöxtun. Þetta kemur fram í athugasemd á vefsíðu Landssamtaka lífeyrissjóða við ummælum bankastjóra Arion banka í viðtali við ViðskiptaMoggann á fimmtudaginn um að ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna setji ákveðið gólf.
Ávöxtun lífeyrissjóða ræðst af ávöxtun eigna sjóðanna, svo sem skuldabréfa, hlutabréfa og innlána, segir á vef samtakanna. Sjóðirnir kaupi skuldabréf á markaði þar sem ávöxtunarkrafa ræðst fyrst og fremst af framboði og eftirspurn.
Á undanförnum mánuðum hafi til dæmis ávöxtunarkrafa á löngum ríkisskuldabréfum lækkað niður fyrir 3% meðal annars vegna takmarkaðs framboðs.