Þegar borin eru saman meðallaun fólks í Evrópu eftir menntun kemur í ljós að hvergi er eins lítill munur og hérlendis á launum þeirra sem lokið hafa háskólanámi og þeirra sem einvörðungu hafa lokið grunnskóla.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag, en þar er fjallað um árlega skýrslu um lífskjör í Evrópu sem Hagstofa Evrópusambandsins gefur út. Gögnin sem tengjast stöðu Íslands eru sótt í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.
Þar er starfandi fólki skipt í þrjá flokka, í fyrsta lagi þann hóp sem aðeins hefur lokið skólaskyldu eða grunnskólanámi, í öðru lagi þann hóp sem lokið hefur framhaldsskóla, öðru sambærilegu námi á borð við iðnnám og svokölluðu viðbótarnámi sem getur talist jafngilda allt að tveggja ára háskólanámi. Í þriðja lagi er það sá hópur sem lokið hefur að minnsta kosti þriggja ára háskólanámi.