Margrét Sanders, formaður SVÞ, segir að miðað kröfugerð stéttarfélaganna nú reiknist SVÞ til að það svari til 30-70% launahækkunar. Hún telur að frekar eigi að horfa til aðgerða sem skili árangri. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Margrétar á aðalfundi SVÞ í vikunni.
„Mikil óvissa er í kjaraviðræðum þessa stundina. Kaupmáttaraukning innan ársins 2014 var 5,8%, -algerlega frábær árangur og þið getið séð hann hér í sögulegu samhengi. Kröfur þeirra sambanda sem ganga hvað harðast fram og hafa núna boðað verkfallsaðgerðir eru að lágmarkslaun verði 300 þúsund og segjast vera að leggja megináherslu á lágmarkslaunin. En er það raunverulega þannig?
Þeir eru allavega einnig með í sinni kröfugerð að lagfæra þarf launatöflu vegna mikilla krónutöluhækkana undanfarin ár og gera kröfu um að bilið á milli launaflokka verði 1,5%. Okkur reiknast til að lægstu laun séu þá að hækka um 50% og hæstu flokkarnir um 70%. Fleiri félög hafa fylgst í kjölfarið en örlítið hófsamari ef hægt er að tala um hófsemd í þessu samhengi, þar eru kröfur um 15 – 30 % hækkanir.
Eru 30/50/70 % launakröfur að skila einhverju til launþega. Við segjum nei.
Horfum til þess hvað getur skilað árangri, og þá sérstaklega til lægstu og millitekjuhópanna.
Þetta er það sem skiptir launþega máli auk eðlilegra launahækkana, þetta er það sem skilar okkur mesta kaupmættinum. Þetta er það sem gerir okkur samkeppnishæf við þjóðirnar sem við viljum bera okkur saman við,“ segir Margrét.