Stóraukin tedrykkja á Íslandi

Kristín telur að fólk sé frekar farið að drekka gæðakaffi …
Kristín telur að fólk sé frekar farið að drekka gæðakaffi og þá minna af því. AFP

Tedrykkja landsmanna virðist hafa stóraukist á liðnum árum á sama tíma og kaffidrykkja hefur bara haldið sínu striki. Frá árinu 2005 hefur innflutningur á tei aukist um 38 prósent á meðan innflutningur á kaffi hefur dregist saman um 2,4 prósent.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru á árinu 2005 flutt 67,5 tonn af te til landsins en á árinu 2013 nam innflutningurinn 93,3 tonnum. Árið 2005 voru 2.503 tonn af kaffi og kaffilíki flutt inn, en á árinu 2013 hafði dregið lítillega úr, og nam innflutningurinn 2.441 tonni. Ekki hafa verið teknar saman tölur yfir innflutning á tei á síðasta ári en hins vegar dró ennþá frekar úr kaffiinnflutningi og stóð hann þá í 2.345 tonnum.

Svart te vinsælast

„Fólk er farið að læra að drekka te í staðinn fyrir kaffi,“ segir Kristín María Dýrfjörð, markaðsstjóri hjá Te og kaffi, en þegar blaðamaður náði af henni tali var hún einmitt nýkomin heim úr teferð í Þýskalandi, þar sem hún skoðaði og smakkaði te fyrir fyrirtækið. „Ég hef lengi verið talsmaður tedrykkju og hef alltaf verið að reyna að koma því á framfæri,“ segir Kristín og nefnir að Te og kaffi hafi t.a.m. stóraukið úrval sitt af tedrykkjum á liðnum árum.

Þrátt fyrir að um níutíu prósent sölunnar hjá Te og kaffi sé enn í formi kaffidrykkja segir Kristín að innkaup á tei hafi stóraukist hjá fyrirtækinu. Í fyrra fluttu þau inn 5,3 tonn en fjögur tonn á árinu 2013.

Kristín segir svart te vera vinsælast en að blandaðir tedrykkir njóti vaxandi hylli. Þá telur Kristín kaffimenningu yfir höfuð vera að taka breytingum á Íslandi og telur að fólk sé frekar farið að drekka betra kaffi og þá minna af því. „Í staðinn fyrir að vera að sulla í því allan daginn drekka margir tvo til þrjá góða bolla á dag,“ segir Kristín.

Bandaríkjamenn einnig á tevagninum

Íslendingar eru ekki einir um aukinn teáhuga því tes­ala hefur einnig aukist verulega í Banda­ríkj­un­um á síðustu árum. Heild­ar­sal­an nam um tveim­ur millj­örðum dollara á ár­inu 1990 en 10 millj­örðum á síðasta ári.

Á móti virðist draga úr kaffidrykkju en sam­kvæmt niður­stöðum könn­un­ar fé­lags kaffi­kaup­manna (e. Nati­onal Cof­fee Associati­on) drekka um 59 pró­sent Banda­ríkja­manna einn kaffi­bolla á hverj­um degi. Í fyrra var hlut­fallið 61 pró­sent en árið 2013 var það 63 pró­sent. Þróunin í átt að tedrykkju var þá sér­stak­lega talin greini­leg hjá þeim sem eru á aldr­in­um 16 til 26 ára.

Grænt te er sagt sérlega hollt.
Grænt te er sagt sérlega hollt.
Kaffi er þó alltaf vinsælt
Kaffi er þó alltaf vinsælt AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK