Björgólfur Thor Björgólfsson stefnir aftur til Rússlands. Í ítarlegu viðtali við Financial Times, sem birtist í dag, segir hann að fall rúblunnar og krísan í Úkraínu geri það að verkum að „fullkomið tækifæri“ sé til að fjárfesta í Rússlandi.
Hann segir að bestu samningarnir verði til þegar fjárfest sé í „löskuðum fyrirtækjum í stöndugum ríkjum eða stöndugum fyrirtækjum í löskuðum ríkjum”.
Björgólfur fór til Rússlands á tíunda áratug síðustu aldar og var þar í áratug að byggja upp gosdrykkja- og bjórframleiðslu í félagi við föður sinn, Björgólf Guðmundsson, og Magnús Þorsteinsson. Þetta fyrirtæki seldu þeir loks árið 2002 og nam hagnaður Björgólfs Thors um hundrað milljónum dala.
Í viðtalinu segir hann að hann sé um þessar mundir að fjárfesta í atvinnugeirum sem hafi hingað til reynst honum vel, fjarskiptageiranum og lyfjafyrirtækjum.
Hann fer um víðan völl í viðtalinu og fjallar um feril sinn og fjárfestingar. Hann segir meðal annars að sín stærstu mistök hafi verið að snúa aftur til Íslands eftir að hafa náð góðum árangri í austurhluta Evrópu. Eins og kunnugt er eignaðist hann um 45 prósenta hlut í Landsbankanum með föður sínum árið 2002, að Rússlandsævintýrinu loknu.
Hann segir að mjög auðvelt hafi verið að græða peninga á Íslandi á þessum árum. „Ég vissi að þetta var áhættusamt. En þetta var eins og með súkkulaðiköku eða drykk í partíi. Þú veist að þú ættir ekki að fá þér, en þú færð þér engu að síður. Ég gleymdi mikilvægu lexíunum um hófsemi og sjálfsaga,“ segir hann.