„Meginstefið er að sumu leyti rétt og það getur verið ástæða til þess að aðskilja greiðsluþjónustu frá útlánastarfsemi en þetta er eins og að nota fallbyssu til þess að veiða rjúpu í jólamatinn,“ segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, um nýja skýrslu Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, um endurbætur á peningakerfinu.
Skýrslan, sem unnin var að beiðni forsætisráðherra, skoðar að hvaða leyti megi rekja vandamál í stjórn peningamála hér á landi til þess að bönkum sé heimilt að „búa til peninga‟ þegar þeir veita lán.
Þar leggur Frosti til hugmynd að svokölluðu þjóðpeningakerfi þar sem öll innlán sem nú eru hjá viðskiptabönkunum yrðu færð yfir í Seðlabankann sem jafnframt myndi stjórna peningamagni í umferð.
Þegar innlánin væru færð yfir myndi Seðlabankinn eignast kröfu á hvern banka að sömu fjárhæð. Sú krafa yrði alls um 452 milljarðar króna og myndi greiðast upp á tíu árum. Í hvert skipti sem greitt yrði af kröfunni myndi peningamagn í umferð minnka og Seðlabankinn þyrfti að láta búa til nýja „þjóðpeninga“ til þess að að halda magninu stöðugu.
Það yrði t.d. gert með því að auka ríkisútgjöld, draga úr skatttekjum, greiða upp ríkisskuldir eða með því að greiða arð til ríkisborgara eða skattgreiðenda.
Viðskiptabankarnir myndu þó áfram bjóða upp á bundna innlánsreikninga sem fólk gæti lagt inn á til þess að fá hærri vexti og tæki jafnframt af því áhættuna. Á þeirra vegum væru þó engir reikningar sem fyrirvaralaust er hægt að taka út af.
Aðspurður sagði Frosti að ef sátt myndi skapast um lausnina og ef ákveðið yrði að innleiða hana þyrfti ferlið sjálft ekki að taka meira en sex mánuði í framkvæmd þótt tíu ár tæki að greiða upp kröfu Seðlabankans á bankana.
Ásgeir segir skýrsluna áhugaverða og vonast til þess að hún geti komið af stað umræðu um málið en telur tillögurnar þó ekki raunhæfar. Aðspurður segir hann einnig hættu á efnahagslegri stöðnun þar sem erfiðara yrði að nálgast lánsfjármagn. Bankakerfið myndi minnka verulega og þar af leiðandi yrði mun minna af fjármagni til reiðu á miklu hærri vöxtum. „Ég held að vandamálið sem verið er að leysa með þessu sé lítið í samanburði við kostnaðinn sem af þessu myndi hljótast.“
Hann segir ljóst að fáir vilji binda peningana sína til lengri tíma, heldur vilji fólk almennt hafa þá lausa. Þá vilji flestir jafnframt eiga kost á láni til lengri tíma, fyrirtæki vilji eiga kost á lánstíma til jafns við endingartíma framleiðslutækja og einstaklingar vilji miða húsnæðislánin við vinnuævina. „Það er ákveðin þversögn til staðar. Fólk vill spara en það vill ekki binda peningana sína. Á sama tíma vilja fáir taka lán nema til langs tíma,“ segir hann og bætir við að brotaforðakerfið svokallaða, sem er kerfið sem Íslendingar og aðrar þjóðir búa við, mæti þessari þörf.
Frosti vísaði til þess að nítjánföld aukning hefði verið á peningamagni í umferð á fjórtán árum fram að árinu 2010 og að nauðsynlegt væri að koma böndum á þróunina. Ásgeir bendir á að bankarnir séu ekki einir og sér að prenta peninga og neyða þá upp á hagkerfið. „Peningamagn er innlán. Það er alltaf einhverjir sem eiga innlánin og það af ástæðu. Fólk hefur bæði þörf fyrir innlán og útlán og bankarnir mæta þessari þörf,“ segir Ásgeir.
Þá bætir hann við að peningaprentunin sé heldur ekki ókeypis þar sem bankarnir greiða innlánavexti og sinna greiðsluþjónustu fyrir viðskiptavini sína. „Segja má að útibúanetið, greiðsluvélar og alls kyns utanumhald séu það gjald sem bankarnir greiða fyrir skammtímainnistæður. Það er mikið efamál að Seðlabankinn hefði síðan arð af því að taka þessa starfsemi yfir samhliða því að fá öll innlánin til sín og líklega á það eftir að reynast mjög dýr fjármögnun fyrir ríkissjóð.“
Ásgeir segir ákveðinn ávinning geta verið af því að aðskilja greiðsluþjónustu og útlán og telur í raun að það muni gerast á næstu árum. Þá umræðu segir hann í gangi og tengjast skuggabankastarfsemi, sem færst hefur í aukana, og merkir það þegar aðrir aðilar en bankar eru að taka að sér hefðbundna bankastarfsemi, s.s. að lána peninga. Bendir Ásgeir á að ástæða væri til að aðskilja hefðbundna og áhættulitla bankastarfsemi með lágum vöxtum og áhættumeiri fjárfestingastarfsemi með hærri vöxtum.