Um helmingur launamanna var með heildarlaun yfir 500 þúsund krónum árið 2014. Meðaltal heildarlauna var 555 þúsund krónur á mánuði en töluverður munur er á meðaltali launa hjá kynjunum, eða 619 þúsund hjá körlum og 486 þúsund hjá konum.
Rúmlega helmingur fullvinnandi launamanna var með heildarlaun undir 500 þúsund krónum á mánuði árið 2014 og um 45% launamanna voru með heildarlaun á bilinu 300 til 500 þúsund krónur. Tæplega 30% launamanna voru með heildarlaun á bilinu 500 til 700 þúsund og tæp 20% voru með heildarlaun yfir 700 þúsund krónur á mánuði árið 2014.
Þetta kemur fram hjá Hagstofu Íslands.
Fleiri launamenn voru með laun undir meðaltali en yfir því, eða 63% launamanna. Þá voru 75% kvenna með heildarlaun undir meðaltali en rúmlega helmingur karla. Þetta skýrist meðal annars af því að það voru fleiri útgildi til hækkunar meðaltals en lækkunar, þar sem kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör.
Árið 2014 voru heildarlaun hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi en þar voru heildarlaun 763 þúsund krónur að meðaltali. Heildarlaun voru lægst í fræðslustarfsemi en þar voru þau 445 þúsund krónur að meðaltali og var það eina atvinnugreinin þar sem meðaltal heildarlauna náði ekki 500 þúsund krónum árið 2014.
Á almennum vinnumarkaði voru meðallaun 580 þúsund krónur á mánuði en heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 603 þúsund krónur. Heildarlaun starfsmanna sveitarfélaga voru að meðaltali 442 þúsund krónur á mánuði. Þá voru heildarlaun kvenna að jafnaði lægri en karla og dreifing launa þeirra var minni en dreifing launa karla.