Hljóp á milli sjö hraðbanka

Reiðufé kláraðist í nokkrum hraðbönkum um helgina.
Reiðufé kláraðist í nokkrum hraðbönkum um helgina. mbl.is/ÞÖK

Búið er að fylla á flesta hraðbankana sem tæmdust í Reykjavík um helgina að sögn upplýsingafulltrúa bankanna. Bala Kamallakharan, fjárfestir og upphafsmaður Startup Iceland, var á meðal þeirra fjölmörgu sem hlupu á milli hraðbanka í leit að reiðufé.

Bala segist hafa farið á milli sjö hraðbanka áður en hann fann einn sem virkaði. Þá segir hann heilan her af túristum hafa fylgt sér á eftir áður en hægt var að taka út peninga í Kolaportinu.

Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa Landsbankans, verður lokið við að fylla á hraðbankana í dag en hann segir að fyrst hafi verið gengið í þá sem eru í miðborginni, þar sem ásóknin er mest. Þá segja Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, og Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion, að bankarnir séu einnig orðnir klárir hjá þeim.

Óvenjulegar aðstæður

Upplýsingafulltrúunum ber saman um að aðstæður hafi verið mjög óvenjulegar um helgina en þetta er í fyrsta skipti sem hraðbankarnir hafa tæmst með þessum hætti. Þau benda á að mánaðamót hafi verið fyrir helgi en þá er alltaf mikil umferð í hraðbönkunum. Þá voru einnig frídagar auk ferminga með tilheyrandi úttektum auk þess sem mikill fjöldi ferðamanna er á landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum getur gott veður þá einnig haft áhrif. Þá eru fleiri á ferli og taka þar af leiðandi meira út. „Þetta lagðist allt saman á eitt,“ segir Kristján Kristjánsson.

Ekki hefur verið skoðað sérstaklega hvort meira hafi verið tekið út af innlendum eða erlendum greiðslukortum en samkvæmt upplýsingum frá Arion banka stendur til að gera það.

Fylla oftar á?

Aðspurð hvort til standi að grípa til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur segja upplýsingafulltrúarnir að ástandið hafi verið mjög sérstakt og að framtíðaraðgerðir muni því ekki beint ráðast af þessari helgi. Hins vegar verði þetta haft í huga fyrir aðra sambærilega frídaga. „Við lærum af þessu og þurfum að vera betur undirbúin til þess að geta gripið til ráðstafana ef eitthvað svona kemur upp á,“ segir Kristján.

Bala bendir á að það gæti verið sniðug lausn á málinu ef hægt væri að láta bankana vita í gegnum hraðbankann þegar reiðufé vantar. Kristján segir starfsmenn bankans þegar geta fylgst með stöðunni í hraðbönkunum. Það hafi einfaldlega ekki verið gert nógu vel um helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka yrði þá frekar fyllt oftar á bankana heldur en að meira verði sett í þá. Þá bendir Haraldur Guðni einnig á að flestar verslanir og veitingahús taki við greiðslukortum og því hafi vandræði ferðamanna mögulega verið takmörkuð. Hann bendir á að Íslendingar standi framarlega í greiðslukortaþjónustu og því sé það ef til vill fremur vani en þörf að vilja hafa reiðufé við höndina á ferðalaginu.

Bala Kamallakharan, fjárfestir.
Bala Kamallakharan, fjárfestir. Árni Sæberg
Straumur ferðamanna hefur aukist. Úttektir í hraðbönkum hafa þar af …
Straumur ferðamanna hefur aukist. Úttektir í hraðbönkum hafa þar af leiðandi verið meiri. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK