Megum ekki snúast gegn ferðamönnum

Ferðamenn á köldum degi í Reykjavík
Ferðamenn á köldum degi í Reykjavík Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Reikna má með að um tuttugu þúsund ferðamenn verði í Reykjavík á hverjum degi í sumar. Það jafngildir því að hver einasti Akureyringur hafi ákveðið að koma í bæinn. Þegar ferðamönnum sem koma með skemmtiferðaskipum er bætt við má segja að allir Selfyssingar séu þar einnig.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Svanhildar Konráðsdóttur, sviðsstjóra Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, á ráðstefnu í Hörpu í dag um framtíð ferðaþjónustu í Reykjavík.

Svanhildur lýsti því hvernig Reykjavík hefur þróast úr stoppistöð ferðamanna í sinn eigin áfangastað og vísaði til viðhorfskönnunar sem gerð var meðal túrista á árinu 1996 þar sem þriðjungur aðspurða sagðist helst ekkert vilja vera í bænum. Þeir væru þar af illri nauðsyn á leið upp á fjöll. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og hefur ferðamönnum fjölgað úr tæpum 40 þúsundum á árinu 1998 í um 140 þúsund á árinu 2014.

Verslanir fá verstu einkunnina

Samkvæmt tölum Höfuðborgarstofu, þar sem einnig er tekið tillit til gistirýma á svörtum markaði í Reykjavík, er talið að 154% aukning hafi verið á gistinóttum frá árinu 2004 til 2014. Svanhildur benti á að vöxturinn hefði ekki verið jafn hraður í annarri þjónustu. Hún vísaði til þess að ferðamannastraumur í sundlaugar höfuðborgarsvæðisins hefði aukist um 69 prósent á sama tíma og að fjölgun á söfnum og sýningum hefði einnig verið minni. Auk þess fá söfnin ekki mjög háar einkunnir í bókum ferðamanna. Verri einkunn fengu þó verslanir í borginni hjá ferðamönnum en Svanhildur sagði óljóst hvers vegna það væri; hvort ferðamönnum fyndist skorta fjölbreytni eða hvort verðlagið þætti óheillandi.

Hún sagði ljóst að sóknarfærin væru mörg. Mikilvægt væri þó að huga að þolmörkum borgarinnar og vísaði til ummæla Gísla Marteins Baldurssonar á síðasta ári þegar hann sagði Reykjavík eiga á hættu að verða rándýr túristagildra þar sem heimamenn snerust gegn ferðamönnum. Hún sagði mikilvægt að heimamenn sýndu ferðamönnum áfram gott viðmót þar sem vinsemd borgarbúa væri meðal sérstöðu Reykjavíkur.

Koma þarf í veg fyrir árekstra

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og kynnir á fundinum, benti þá á að hröð fjölgun ferðamanna í sundlaugum væri ef til vill ekki ókostur þegar litið væri til þess að laugarnar þykja gjarnan helg vé þeirra sem hér búa.

George William Carnes, forstjóri Turisme de Barcelona, sagði að til árekstra gæti komið á milli heimamanna og ferðamanna þegar umframeftirspurn myndaðist. Hann sagði svipuð álitamál vera uppi í Barcelona þar sem ferðamönnum hefði fjölgað úr 2,5 milljónum á árinu 1993 í 7,9 milljónir á síðasta ári. 

Greiningardeild Íslandsbanka benti á það á dögunum að ferðamenn væru á hverjum tíma um 7,2% af heildaríbúafjölda landsins. Þetta er sjöunda hæsta hlutfall heims og einungis smáríki á borð við Vatíkanið og Bahamaeyjar eru þar fyrir ofan. Ekkert af stóru ríkjunum kemst nærri og er hlutfallið t.a.m. 2,2% á Spáni.

Undirbúa hverfin

Carnes benti á að borgarráð gegndi lykilhlutverki við að dreifa ferðamannafjöldanum um borgina til þess að forðast árekstra. Hann vísaði þó til þess að nauðsynlegt væri að undirbúa hverfin ef stefnan væri að breyta straumnum. „Þú þarft að útbúa verslanir og undirbúa fólk á svæðinu,“ sagði hann og ítrekaði að samráð væri nauðsynlegt.

Þá vísaði hann til þess að aðgangseyrir hefði verið tekinn upp við frægar byggingar svo sem Park Güell í Barcelona til þess að minnka ásóknina. Þá sagði hann ekki boðlegt að fólk stæði í löngum röðum úti á götu heldur væri ráð að dreifa fjöldanum og jafnvel koma á kerfi þar sem fólki væri vísað á að koma aftur á ákveðnum tíma.

Þá sagði hann jafnvel koma til greina að taka upp reglur um rútuferðir í miðborgina til þess að dreifa álaginu.

Airb'n'b skekkir myndina

Carnes sagði ýmsar áskoranir felast í auknum ferðamannafjölda og vísaði meðal annars til gistiþjónustu á borð við Airb'n'b. Hann sagði nauðsynlegt að fá starfsemina upp á yfirborðið þar sem stjórnvöld þyrftu í fyrsta lagi að vita öryggisins vegna hverjir gistu á hvaða stað í borginni. Þá benti hann á að borgin væri með skipulag og uppbyggingu í tengslum við ferðamannaiðnaðinn og að svartur markaður í gistiþjónustu skekkti þá mynd.

Frétt mbl.is: Neikvæðnin mest í 101 Reykjavík

Svanhildur Konráðsdóttir
Svanhildur Konráðsdóttir mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
Ferðamönnum hefur fjölgað ört í borginni.
Ferðamönnum hefur fjölgað ört í borginni. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK