Áætlun um losun gjaldeyrishafta verður hrint í framkvæmd áður en þingið lýkur störfum. Sérstakur stöðugleikaskattur verður þá lagður á sem forsætisráðherra segir að muni skila þjóðarbúinu hundruðum milljarða króna.
Skatturinn og aðrar aðgerðir eiga að gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað.
Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við setningarathöfn 33. flokksþings framsóknarmanna í dag.
Sigmundur sagði að ekki væri lengur hægt að una því að íslenska hagkerfinu væri haldið í gíslingu óbreytts ástands og að eignarhald á fjármálakerfi landsins væri í því horfi sem það er.
Þá sagði hann að á meðan undirbúningur fyrir losun hafta hefði staðið yfir hefðu stjórnvöld beðið þess að sjá hvort slitabúin legðu fram raunhæfa áætlun um nauðasamninga. Áætlun þar sem tekið yrði tillit til hagsmuna íslensks almennings og sýnt fram á að efnahagslegum stöðugleika yrði ekki ógnað.
Slíka kröfu sagði hann ekki óeðlilegt að gera þar sem ómögulegt væri fyrir stjórnvöld að losa höftin fyrr en menn hefðu vissu fyrir því að lífskjörum þjóðarinnar yrði ekki stefnt í voða.
„Eignirnar hafa verið verndaðar, viðhaldið og auknar í skjóli hafta. En aðeins með afléttingu haftanna er hægt að innleysa hagnaðinn,“ sagði Sigmundur.
Sigmundur Davíð sagði að stefna kröfuhafa hefði framan af miðað að því að Ísland gengi í Evrópusambandið þar sem markmiðið var að Evrópski seðlabankinn myndi borga þá út. „Slíkt hefði verið efnahagslegt glapræði enda gefur evrópski seðlabankinn ekki aðildarlöndunum ókeypis peninga,“ sagði Sigmundur.
Evrópusambandið hefði þá að sögn Sigmundar ekki sýnt Íslendingum neina miskunn. „Áður en hægt var að stíga næstu skref við losun fjármagnshafta var því ekki um annað að ræða en að skýra afstöðu okkar til umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu.
Eftir að undirbúningsvinnu sérfræðinganna lauk og tekið var fyrir Evrópusambandsleiðina var fulltrúum slitabúanna og vogunarsjóðanna tilkynnt að ekki væri hægt að bíða lengur,“ sagði Sigmundur Davíð.