Aðalfundur HB Granda fór fram í kvöld þar sem meðal annars var tekin ákvörðun um arðsúthlutun og kosið var í stjórn félagsins.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að samþykkt hafi verið að greiða 1,50 krónur á hvern hlut í arð vegna ársins 2014, alls fjárhæð 2.720.488.085 krónur. Verður greiðslan greidd út þann 30. apríl 2015.
Arðsréttindadagurinn er 14. apríl 2015.
Þeir sem hlutu kjör í stjórn félagsins voru: Kristján Loftsson, Halldór Teitsson, Hanna Ásgeirsdóttir, Rannveig Rist og Þórður Sverrisson.
Upphaflega buðu sjö manns sig fram í stjórnina en Birgir S. Bjarnason dró framboð sitt tilbaka fyrr í dag.
Var samþykkt að þóknun stjórnarmanna verði 200 þúsund krónur á mánuði og fær formaður tvöfaldan hlut.
Deloitte ehf var kosið endurskoðandi félagsins.
Þá var einnig samþykkt tillaga um að stjórn fái heimild til kaupa á eigin hlutum. Heimildin stendur í 18 mánuði og takmarkast við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupgengi má eigi vera hærra en í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er.