Nýir fjárfestar við Hörpuhótel

Hótelið á að vera staðsett næst Hörpu, en torg verður …
Hótelið á að vera staðsett næst Hörpu, en torg verður á milli bygginganna.

Verið er að leggja lokahönd á aðkomu bandarískra kjölfestufjárfesta að Hörpuhótelinu sem áformað er að verði fyrsta fimm stjörnu hótel landsins. Áður hafði hópur indverskra fjárfesta, undir nafninu Auro investment, komið að málinu ásamt Mannviti og arkitektastofunni T.Ark. Síðasta haust sagði Auro hópurinn skilið við verkefnið og Arion banki kom inn með nýtt fjármagn. Stefnt er að því að loka fjármögnuninni með aðkomu bandaríska hópsins, en samstarfið verður kynnt betur í næstu viku.

Fjármagn og reynsla af hóteluppbyggingu

Tryggvi Jónsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Mannvit og forsvarsmaður Kolufells sem sér um uppbygginguna, segir í samtali við mbl.is að bandarísku fjárfestarnir hafi byggt mörg lúxushótel í Bandaríkjunum og komi því bæði með fjármagn og talsverða reynslu af hóteluppbyggingu inn í myndina.

Aðspurður hvort ákveðið hafi verið hvaða nafn eða hótelkeðju hótelið muni tilheyra segir Tryggvi ekki rétt að segja til um það enn sem komið er. Hann segir að þrátt fyrir breytingu innan hópsins og aðkomu Arion banka og bandarísku fjárfestana hafi ekkert breyst varðandi stærð hótelsins eða ásýnd. Aðspurður um ástæðu þess að Auro hópurinn fór frá verkefninu segir hann að þeir hafi byrjað verkefnið á sínum tíma en nú viljað fara út.

Löng saga hótelævintýrisins

Hótelævintýrið við Hörpu á sér nokkuð langa sögu, en fyrir hrun var byrja að skoða mögulega hótelbyggingu á reitnum. Í viðtali við mbl.is í fyrra sögðu forsvarsmenn verkefnisins að þeir hefðu árið 2009 skoðað þar uppbyggingu og svo árið 2011 þegar Sítus, eignarhaldsfélag í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins, bauð lóðina til sölu hafi þeir hoppað til.

Svissneskur hópur átti hæsta boð

Hópurinn samanstóð þá af Mannviti, T.Ark og Auro investment, en þeir áttu næst hæsta boð í lóðina. Svissneska fjárfestingafélagið World Leisure Investment átti hæsta boð upp á rúmlega 1,8 milljarð og fóru um tvö ár í samningaviðræður við þá.

Í apríl 2013 var aftur á móti endanlega ljóst að svissneski hópurinn myndi ekki fara út í framkvæmdirnar og því var kallað á Auro hópinn. Áfram reyndist vera áhugi þeirra á verkefninu og í lok sumarsins var greitt tæplega tvo milljarða fyrir lóðina.

Fallið frá 450 herbergja hugmyndinni

Upphaflegu hugmyndirnar hljóðuðu upp á 450 herbergja hótel, en þær voru fljótlega slegnar af borðinu og það minnkað niður í 250 herbergi auk þess sem fimm íbúðarhús komu inn í myndina með samtals 90 íbúðum og verslunum á neðstu hæð.

Heildarfjárfesting um 14,4 milljarðar

Á þessum tíma var Bala Kamallakharan í forsvari fyrir hópinn, en á bak við hann stóð Auro investment hópurinn. Sagði hann í samtali við mbl.is að áætlað væri að heildarfjárfesting vegna verkefnisins lægi í um 14,4 milljörðum.

Í apríl á síðasta ári sagði Bala að ekki hafi verið ákveðið hvaða nafn hótelið bæri, en að viðræður væru í gangi við Sheraton, Westin og Le Méridien. Seinna sama ár sagði hann að mestar líkur væru á að hótelið yrði undir nafni Marriott eða W Hotels, en W er í eigu sömu aðila og Sheraton og Westin.

Nýir aðilar í eigendahópinn og breytt nafn

Þegar Auro hópurinn keypti lóðina var stefnt að því að búið væri að klára fjárfestinguna seinni hluta síðasta árs og að framkvæmdir gætu hafist í byrjun þessa árs. Í október sagði Bala við mbl.is að fjármögnun hefði tekið lengri tíma en áætlað hefði verið. Ljóst var að framkvæmdir myndu eitthvað dragast á þeim tíma.

Undir lok ársins breyttist eigendahópurinn nokkuð eins og fyrr segir og kom Arion banki inn í stað Auro investment. Nafni félagsins var í kjölfarið breytt í Kolufell ehf. Síðan þá hefur verið leitað að kjölfestufjárfesti og verður hann nú kynntur í næstu viku.

Teikning af hótelinu með Hörpu á hægri hönd.
Teikning af hótelinu með Hörpu á hægri hönd.
Auk hótelsins ætlar Kolufell að reisa fimm íbúðahús á lóðinni, …
Auk hótelsins ætlar Kolufell að reisa fimm íbúðahús á lóðinni, en þar verða einnig verslanir á neðstu hæð.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK