Framkvæmdir hófust um klukkan níu í morgun á Hlíðarenda þegar fyrsta grafan mætti til leiks. Búast má við því að allt að 800 til 850 íbúðir muni rísa á svæðinu á næstu sex árum.
Fyrst verður lagður framkvæmdavegur um svæðið sem hugsaður er til þess að hægt sé að komast að öllum lóðunum níu á svæðinu. Reykjavíkurborg, Knattspyrnufélagið Valur og Valsmenn hf. skrifuðu undir samning við GT verktaka á miðvikudag.
Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður framkvæmdanna verði á bilinu 25 til 30 milljarðar króna. Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna hf., sagði á dögunum í samtali við mbl að fjármögnunin væri fjölþætt og að þegar hefði náðst samstarf við íslenska fagfjárfesta.
Valsmenn hf. er í 40% eigu Knattspyrnufélagsins Vals auk rúmlega 400 einstaklinga sem saman eiga 60% hlut. Valsmenn keyptu byggingarlandið á Hlíðarenda hinn 11. maí 2005 á 872 milljónir króna af Reykjavíkurborg.
Um 200 íbúðir á svæðinu verða svokallaðar stúdentaeiningar og til útleigu fyrir námsmenn. Byrjað verður á framkvæmdum við um 600 íbúðir en helmingur þeirra verður tveggja herbergja og rúmur fimmtungur þriggja herbergja.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði m.a. í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag að öllum mætti vera ljóst „að grípa þarf til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann.“
Þá hefur Friðrik Pálsson, annar formaður stuðningssamtaka Reykjavíkurflugvallar, Hjartans í Vatnsmýrinni, sagt að með því að hefja framkvæmdir á Hlíðarenda væri verið að brjóta allar brýr sáttaferlis, sem meðal annars væri verið að vinna að innan svokallaðrar Rögnunefndar.
Hjartað í Vatnsmýrinni hefur skorað á Alþingi og innanríkisráðherra í fyrradag að stöðva framkvæmdir Reykjavíkurborgar og Valsmanna hf. á Hlíðarenda.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, hefur bent á að fyrstu framkvæmdir á Hlíðarendalandinu og að lagning framkvæmdavegarins hafi ekki neitt að gera með neyðarbrautina að gera
Frétt mbl.is: Áherslan á smærri íbúðir við Hlíðarenda
Frétt mbl.is: Íbúðir á svæðinu gætu orðið allt að 850
Frétt mbl.is: Mun gjörbreyta fjárhag Vals