Ekki fara að hegða ykkur aftur illa. Haldið ykkur við grundvallaratriðin. Markaðurinn er að fylgjast með. Þetta sagði Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, í ræðu sinni á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í Hörpu í dag.
Hann sagði Ísland búa að gríðarlegum efnahagslegum styrk og miklum auðævum en benti á að kjaraþróun skipti miklu máli, þar sem auður landsins gæti dregist saman. „Miklar hækkanir eru ekki það sama og raunverulegar hækkanir,“ sagði Persson.
Persson sagði Íslendinga vissulega hafa áorkað miklu eftir fjármálahrunið en hins vegar væri það ekki erfiðasta verkefnið að koma jafnvægi á ríkisbúskapinn. Vandamálið væri að gera breytingar á kerfinu þannig að vandamálið endurtaki sig ekki.
„Það er getur verið freistandi fyrir stjórnmálamenn að horfa bara til næstu kosninga og dreyma um endurkjör,“ sagði hann og hvatti pólitíkusa til þess að taka erfiðar ákvarðanir og stefna starfinu í hættu. Þá benti hann jafnframt á að hann hefði að líkum verið hataðasti maður Svíþjóðar þegar ríkisstjórnin þurfti að skera niður í velferðarkerfinu og hækka jafnframt skatta til þess að koma jafnvægi á ríkisfjármálin.
Hann benti á að áherslur vinstri og hægri stjórnar hefðu ávallt verið ólíkar og því hefði verið komið á fót kerfi sem kveður á um að nauðsynlegt sé að koma inn með nýtt fjármagn til þess að eiga fyrir eyðslu úr ríkiskassanum.
Í Svíþjóð er venja fyrir því að iðnaðarfyrirtæki semji fyrst í kjaraviðræðum og móti það svigrúm sem er til launabreytingar á grundvelli þess hversu miklar kostnaðarhækkanir atvinnugreinar í alþjóðlegri samkeppni þoli án þess að atvinnuleysi og verðbólga aukist.
Persson sagði þetta hafa skilað Svíum hóflegum en raunverulegum launahækkunum í gegnum árin og henta vel löndum sem flytji mun meira inn heldur en út.
„Varið ykkur á einu. Markaðurinn fylgist með,“ sagði Persson og ítrekaði að markaðurinn myndi refsa Íslendingum ef farið yrði illa með fjármagn eftir að höftunum verður aflétt. Hann sagði mikilvægt fyrir þjóðir að sýna að þær geti séð um sín eigin hús.