Lagður er 76 prósent tollur á innfluttar frosnar franskar kartöflur. Markmiðið er að vernda innlenda framleiðslu en aðeins eitt íslenskt fyrirtæki framleiðir hins vegar vöruna og er fjarri því að anna eftirspurn neytenda eftir frönskum.
Hagar og dótturfélag þess Aðföng telja tollana ólögmæta og hafa stefnt íslenska ríkinu vegna þeirra. Farið er fram á endurgreiðslu 70,8 milljóna króna sem fyrirtækið greiddi í toll vegna frönsku kartaflnanna á árunum 2010 til 2014. Málið er á dagskrá héraðsdóms í október.
Álagning tollsins byggist á tollalögum og búvörulögum en í lögunum er þó ekki að finna skýringar eða réttlætingu á þessari gífurlega háu tollprósentu. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, lagði fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra, í mars og spurði m.a. hvert markmiðið væri með tollinum. Svar Bjarna Benediktssonar var nokkuð almennt þar sem hann sagði tolla annars vegar vera lagða á til tekjuöflunar og hins vegar til þess að vernda tiltekna framleiðslu.
Háir tollar á innfluttar vörur hafa verið réttlættir til þess að vernda innlenda búvöruframleiðslu á meðan hún annar eftirspurn íslenskra neytenda. Dæmi um þetta eru t.d. kartöflur sem njóta tollverndar yfir sumarmánuðina þegar íslensk framleiðsla annar eftirspurn. Þá er verðinu stjórnað með 30% verðtolli á innflutningsverð og magntolli sem er krónutala á kíló. Á öðrum tímum þegar ekki er innlend framleiðsla eru tollarnir ekki lagðir á.
Einungis eitt íslenskt fyrirtæki framleiðir franskar kartöflur; Þykkvabæjar. Samkvæmt tölum frá Capacent og AC Nielsen nam árleg sala þeirra að meðaltali um 200 tonnum á árunum 2009 til 2013.
Í stefnunni er haft eftir Friðriki Magnússyni, framkvæmdastjóra Þykkvabæjar, að um 65% af frönskunum séu framleiddar úr íslenskum kartöflum en 35% úr innfluttum kartöflum. Af árlegri 200 tonna sölu eru því að meðaltali aðeins um 135 tonn unnin úr íslenskum kartöflum.
Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru að meðaltali flutt 2.633 tonn af frystum frönskum á hverju ári ef miðað er við meðaltal 2009 til 2013. Heildarneysla nemur um 2.833 tonnum.
Samkvæmt þessu nemur framleiðsla Þykkvabæjar um 7% af innanlandsneyslu og þar af er framleiðsla úr íslenskum kartöflum innan við 5%. Tollurinn er því lagður á um 95% af öllum þeim frönsku kartöflum sem Íslendingar láta ofan í sig.
Lægri tollur, eða 46%, er þó lagður á franskar sem eru fluttar inn frá Kanada og Perú á grundvelli fríverslunarsamninga. Frá Kanada eru fluttar tvær tegundir; McCain og Cavendish. Ekkert er hins vegar flutt inn frá Perú.
Í stefnu málsins kemur fram að tollur sem þessi þekkist ekki í löndunum í kringum okkur og er nefnt að 14,1% tollur sé til að mynda lagður á innfluttar franskar í Danmörku.
Hagar benda á að tollverð franskanna frá árinu 2010 hafi numið 93,3 milljónum króna og nemur 76% tollurinn samtals 70,8 milljónum króna.
„Það er verið að tolla um 95% af heildarmagninu undir því yfirskini að verið sé að vernda einn framleiðanda sem framleiðir um 5% af heildarneyslunni úr íslenskum kartöflum,“ segir Ólafur Stephensen, formaður Félags atvinnurekenda. „Það er ekki mjög málefnalegur verndartollur.“
Þá segir hann þetta ekki heldur vera málefnalega eða sanngjarna tekjuöflunaraðferð. „Þarna er verið að leggja háa tolla á eina innflutningsvöru þar sem innanlandsframleiðslan annar ekki markaðnum nema að örlitlum hluta,“ segir hann og bætir við að vörur líkt og hveiti og pasta, sem eru einnig lítið framleiddar á landinu, beri almennt lága eða enga tolla.