Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines verður fyrst flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi sem býður upp á fullkomna svefnaðstöðu um borð í svokölluðum „flat-bed” sætum.
Þetta kemur m.a. fram í tilkynningu frá félaginu, segir á vefnum Allt um flug en þetta er fimmta sumarið í röð sem Delta flýgur milli Íslands og New York (JFK) en Delta hefur jafnframt lengt ferðatímabilið um 6 vikur og verður fyrsta flugferðin laugardaginn 2. maí næstkomandi og verður flogið til loka september.
„Flat-bed” sætin verða í boði á Delta One viðskiptafarrými félagsins í ferðum hingað til lands í maí og september en sætin er hægt að leggja alveg niður og þá verður til 196 sentímetra langt rúm. Um er að ræða 16 „flat-bed” sæti í Boeing 757-200 þotu Delta, sem rúmar alls 168 farþega.
Yfir hásumarið verður Delta aftur á móti með 234 farþega Boeing 757-300 þotu í notkun og er þar um að ræða aukið sætaframboð frá því sem áður hefur verið.