Í stjórnartíðindum birtast, á hverjum degi, alla daga ársins, að jafnaði fjórar nýjar reglugerðir, lög, reglur, gjaldskrár og önnur fyrirmæli sem stjórnvöld þurfa að koma á framfæri við fólkið í landinu. Frá aldamótum er fjöldi birtinga orðinn um 20 þúsund. „Engin leið er að nokkur maður geti fylgst með þessu flóði sem meðal annars markar rekstrarumhverfi fyrirtækjanna,“ segir í frétt um málið á vef Samtaka atvinnulífsins, undir fyrirsögninni „Eru 4 stjórnvaldsfyrirmæli á dag ráðlagður dagskammtur?“
Í fréttinni kemur fram að lengi hafi verið kallað eftir sameiningu og hagræðingu hjá þeim stofnunum sem sinna eftirliti í fyrirtækjum og sameina eftirlitsstarfsemi í sem fæstum stofnunum. „Æskilegt er að skilja að eftirlitsverkefni og almenna stjórnsýslustarfsemi hins opinbera. Eins og nú háttar koma eftirlitsmenn frá mörgum stofnunum, hver á fætur öðrum, til fyrirtækjanna; verkefni þeirra skarast, kröfurnar geta verið misjafnar eftir landshlutum og tví- og þríverknaður þekkist,“ segir í fréttinni.
SA segir að dæmi um hagræðingu sé að sameina 10 heilbrigðiseftirlitsumdæmi í eina stofnun sem sinni eftirliti fyrir mörg ráðuneyti. „Með því er að auki komið í veg fyrir hagsmunaárekstra, tryggt samræmt eftirlit um allt land og leyfum fækkað. Nýtt heilbrigðiseftirlit tæki yfir eftirlitsstarfsemi Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar og einnig stærsta hlutann af beinum eftirlitsverkefnum Fiskistofu, Neytendastofu, Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins. Það sinnti einnig öllu markaðseftirliti sem nú er sinnt af ofangreindum stofnunum. Ný eftirlitsstofnun fengi þau úrræði sem nauðsynleg eru til að framfylgja kröfum og legði áherslu á að eftirlit yrði áhættumiðað, aukin rafræn samskipti og beitti úrtaksskoðunum. Þar sem kröfur eru ekki uppfylltar yrði eftirlit aukið.“
SA segir að með þessu yrði dregið úr leyfisveitingum og nægilegt í flestum tilvikum að tilkynna um nýja starfsemi til yfirvalda sem jafnframt yrði yfirlýsing um að viðkomandi hafi kynnt sér og uppfylli allar kröfur sem til starfseminnar eru gerðar.
„Viðurkennt yrði að það eru fyrirtækin sem bera ábyrgð á eigin rekstri og það er þeirra hagur að starfa í samræmi við lög og reglur. Ekki yrði dregið úr efnislegum kröfum eða öryggi almennings heldur leitast við að samræma kröfur, einfalda eftirlit, draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.“