„Þetta kemur væntanlega til með að hafa eitthvert fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir kaupendur og seljendur. Áhrifin segja væntanlega til sín eftir því sem verkfallið stendur lengur,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.
Skjölum er varða fasteignaviðskipti hefur ekki verið þinglýst hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu síðan skrifstofunni var lokað miðvikudaginn 1. apríl.
Verkfall félagsmanna hjá BHM hjá embætti sýslumannsins hófst þriðjudaginn 7. apríl og á föstudaginn biðu hátt í þrjú þúsund kaupsamningar afgreiðslu.
Þegar ekki er hægt að þinglýsa kaupsamningum og lánaskjölum eru lán vegna kaupanna ekki greidd út af lánastofnunum þar sem ekki er unnt að skila inn þinglýstum frumritum til þeirra. „Ég efast um að bankarnir geti leyst vanda fólks með yfirdrætti þar sem tryggingu fyrir honum fæst heldur ekki þinglýst. Það er algjör pattstaða komin er upp,“ segir Ingibjörg
Þá bendir hún á að skjöl bætist sífellt við dag frá degi. Ég get ímyndað mér að það taki talsverðan tíma að vinna öll þau mál sem liggja óafgreidd hjá embættinu, sem á í fullu fangi með að efna hefðbundinn afgreiðslufrest,“ segir Ingibjörg. „Þinglýsingar skilar sér því ekki strax að loknu verkfallinu.“
Aðspurð hvort fólk sé farið að fresta viðskiptum segir hún svo ekki vera, en að óvissa um framgang þeirra hafi vissulega áhrif eftir því sem verkfallið dregst á langinn. „Þetta er ástand sem enginn getur haft áhrif á og gerir kaupendum ókleift að efna skyldur kaupsamnings samkvæmt efni sínu,“ segir Ingibjörg.
„Mikil vandræði skapast líka auðvitað fyrir seljendur sem þurfa að nota fjármuni úr sölu eigin eigna ýmist til kaupa á nýrri eign eða til annarra hluta og margir eru í þeirri stöðu að geta ekki mætt í kaupsamninga og þar með innt kaupsamningsgreiðslur af hendi þar sem fjármunir hafa ekki borist þeim.“
Kaupendur eða seljendur kunna þá að telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tafanna og álitamál getur verið um ábyrgðina.
„Að sjálfsögðu skil ég að þeir sem eru í verkfalli beiti þrýstingi en það er umhugsunarefni hvort ekki væri rétt að hafa dreifa verkfalli lögfræðinga hjá sýslumannsembættum milli landshluta,“ segir Ingibjörg að lokum.
Í tilkynningu sem var birt á heimasíðu Bandalags háskólamanna í dag lýsir stjórn félagsins miklum vonbrigðum með stöðuna þar sem verkfallið hafi staðið yfir í þrjár vikur án þess að tillaga hafi komið frá ríkinu.
„Síendurteknar fullyrðingar um að sameiginlegar kröfur BHM félaganna snúist um 50-100% launahækkanir eiga sér engan stað í raunveruleikanum og verða ekki túlkaðir öðruvísi en sem tilraun til að afvegaleiða opinbera umræðu,“ segir í tilkynningunni.
„Ekki verður þó horft fram hjá því fordæmi sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett með kjarasamningum við lækna og framhaldsskólakennara sem m.a tryggðu þeim 25-30% launahækkunum á þeim grundvelli að eðlilegt sé að menntun þeirra sé metin til launa.“
Þá skorar stjórn BHM að lokum á fjármála- og efnahagsráðherra og samninganefnd hans að beina öllum sínum kröftum að gerð kjarasamninga svo verkföllum megi ljúka sem allra fyrst.