„Ég stend fast við könnunina og dreg hana ekki til baka vegna óánægju um að hún hafi ekki verið framkvæmd fyrr,“ segir Kristjana Birgisdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ.
Ormsson og Samsung setrið hafa gagnrýnt vinnubrögð ASÍ við verðkönnun á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og farið fram á að hún verði dregin til baka. Bent er á að könnunin hafi verið gerð í byrjun október en hins vegar hafi verð í verslunum fyrirtækjanna verið lækkuð sem nam vörugjöldum hinn 17. september 2014. Ályktanir ASÍ séu því rangar.
Frétt mbl.is: Harma verðkönnun ASÍ
Aðspurð hvort þetta geri könnunina ómarktæka segir hún svo ekki vera. „Verðkönnunin stendur alltaf. Þetta er bara mæling á verðbreytingum frá viku 41 og til viku 16.“
Þá segist hún vel geta skilið að fyrirtækin séu ósátt við að könnunin hafi verið framkvæmd þarna en ekki daginn eftir að tilkynnt var um að vörugjöldin yrðu afnumin. Verðlagseftirlitið hafi hins vegar ekki verið látið vita um áformin og því hafi ekki verið hægt að undirbúa könnun fyrr.
Niðurstaða ASÍ var sú að verðlækkanir á heimilistækjum væru mun minni en gert var ráð fyrir. Þar segir að gera hafi mátt ráð fyrir að verð myndi lækka um meira en 19%. Í reynd hefðu verð í 41% tilvika lækkað um meira en 20% en í 20% tilvika hefði verð á heimilistækjum hækkað eða staðið í stað.
Kristjana bendir á að fyrirtækin hafi ekki verið búin að skila öllum verðlækkunum. „Ef svo hefði verið hefði væntanlega ekki komið út sama verð.“
Hún segir að 13% varanna sem skoðaðar voru hafi ekki haggast í verði. Það þýði að virðisaukaskatturinn hafi ekki einu sinni verið lækkaður.