Krónan eins og kröfulitlir foreldrar

Hagfræðingarnir Heiðar Guðjónsson og Ásgeir Jónsson.
Hagfræðingarnir Heiðar Guðjónsson og Ásgeir Jónsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skiptar skoðanir um rétta tímann og réttu leiðina fyrir afnám hafta komu fram á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun. Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, sagði að nú væri ekki rétti tíminn. 

„Ytri aðstæður hafa aldrei verið betri og það gefur manni von um að nú séu réttu aðstæðurnar til þess að afnema höftin. Ég tel þó að ekki sé rétti tíminn vegna innri aðstæðna,“ sagði Heiðar á fundi Samtaka atvinnulífsins um gjaldeyrishöft í morgun. „Það skiptir höfuðmáli að vita hvað muni taka við,“ sagði hann og vísaði til þess að tvennt stæði í veginum: Vöntun á trúverðugri peningastefnu og uppgjör slitabúanna.

Lengri tími fylgir nýjum lögum

Heiðar benti á að verið er að smíða nýja lagaumgjörð um Seðlabanka Íslands. „Gefum því sex mánuði í þinglegri meðferð. Síðan þarf að fjölga Seðlabankastjórum. Gefum því sex mánuði. Þeir þurfa síðan að ná saman um útfærslu á lagaumgjörðinni. Það er í fyrsta lagi eftir tvö ár sem menn verða komnir með peningastefnu sem byggir á krónunni,“ sagði hann.

Þá sagði hann stóra málið varða uppgjör slitabúa föllnu bankanna og sagði langeðlilegast að fara með búin í þrot. 

Líkt og mbl hefur áður greint frá er Heiðar Már eig­andi fé­lags­ins Úrsus ehf., sem á al­menna kröfu er nem­ur rúmri 3,1 millj­ón króna í bú Glitn­is hf. Hann hef­ur lagt inn gjaldþrota­skipta­beiðni á hend­ur fé­lag­inu og málið verður tekið til efnismeðferðar fyrir dómstólum síðar í mánuðinum að sögn Heiðars.

Heiðar hefur áður sagt að hann telji sig ekki eiga að þurfa að bíða þess Glitn­ir taki þátt í ferli til af­náms gjald­eyr­is­hafta, sem leiði svo til gerðar nauðasamn­ings, enda sé ekki vissa fyr­ir því hvort og hvenær slíkt gangi eft­ir. 

Hann vísaði í þetta á fundinum í morgun og sagðist telja það ólíklegt að allir kröfuhafar myndu ganga að slíkum samningum. 

Að lokum sagði hann að slitabúin ætti að setja strax í þrot. Gjaldeyrir myndi ekki flæða úr landi sökum haftanna. Íslenskir kröfuhafar myndu fá greitt en erlendir ekki. 

Flestir hlynntir nauðasamningum

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, sagði aftur á móti að löng hefð væri fyrir nauðasamningum á Íslandi og vísaði til þess að flestir kröfuhafar Glitnir væru hlynntir þeim. Ásgeir vann á dögunum skýrslu um kosti við slitameðferð bankanna að beiðni slita­stjórn­ar Glitn­is.

Hann benti á að Íslendingar ættu m.a. við samhæfingarvanda að glíma og væru sífellt með allt of mörg markmið í gangi á sama tíma. „Höftin leyfðu okkur að setja innlend markmið í fyrsta sæti og gátum aukið ríkisútgjöld,“ sagði hann og bætti við að þægindin byggi þó á fölsku öryggi. Það þyrfti sameiginlegt átak til þess að fara úr höftum. Þá sagði hann að árunum eftir hrun hefði verið eytt í endalaust karp um orðna hluti - umræðan um framtíðina væri ekki enn hafin.

Komumst upp með slæma hegðun

Þá gerði hann íslensku krónuna að umtalsefni. „Það versta við hana er að hún lætur okkur komast upp með slæma hegðun. Það er að vissu leyti gaman en ekki gott. Þetta er eins og að eiga foreldri sem leyfir okkur að vera of lengi úti,“ sagði Ásgeir og bætti við að Íslendingar vissu t.a.m. að þeir gætu bara fellt gengið ef samið er um of háar launahækkanir en kaupmátturinn eykst ekki.

„Það skiptir mestu máli að vita hvað við viljum verða þegar við verðum stór,“ sagði Ásgeir og benti á að við hefðum búið við höft nánast alla okkar fullveldissögu. „Það er vegna þess að höftin gera venjulegu fólki kleift að lifa lífinu áhættulaust,“ sagði Ásgeir.

Að lokum benti hann á að ytri aðstæður til haftalosunar væru mjög heppilegar akkúrat núna þar sem peningar virðast flæða til landsins en ekki frá. „Just do it,“ sagði Ásgeir.

Frétt mbl.is: „Ísland er þorpsfíflið“

Afnám gjaldeyrishafta var umræðuefnið á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun
Afnám gjaldeyrishafta var umræðuefnið á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka