Þegar nýting hótelherbergja víðsvegar um heiminn er skoðuð sést að í sumar er Reykjavík ein þeirra borga þar sem nýtingin er mest. Af þeim borgum sem Dohop skoðaði sérstaklega var Reykjavík með hæsta nýtingarhlutfallið í júlí og ágúst.
Þegar leitað er að hóteli á hótelvef Dohop birtast yfirleitt upplýsingar um það hversu hátt hlutfall hótela í borginni er bókað á viðkomandi tímabili. Þessu er ætlað að aðstoða fólk í hótelleit við ákvarðanatöku, en má einnig nota til að bera saman bókunarhlutfall milli borga.
Í júlí og ágúst er hærra hlutfall hótelherbergja bókað í Reykjavík en í Kaupmannahöfn, Berlin, Boston og París.
Þegar fyrsta vikan í júlí er skoðuð er Reykjavík í toppsætinu með 77% hótelherbergja bókuð. Sama gerist í ágúst, en þar er Reykjavík með hæsta hlutfall bókaðra hótelherbergja, um 70%.
Af öllum borgum sem skoðaðar voru er mesta nýting hótelherbergja í Boston fyrstu vikuna í júní eða 85%. Í september er aðeins Amsterdam með hærri nýtingarhlutfall en Reykjavík.
Í tilkynningu frá Dohop segir að þetta sé ef til vill eðlileg nýting hótelherbergja miðað við það að Ísland er eitt af þeim löndum þar sem mest er af ferðamönnum á hvern íbúa, en á hverjum tíma má ætla að 5% þeirra sem eru á landinu séu ferðamenn. Einnig má ætla að ferðamenn skipuleggi Íslandsferðir með lengra fyrirvara en til dæmis þeir ferðamenn sem heimsækja Boston.
Við könnunina voru notuð voru gögn af hótelvef Dohop til að kanna hversu hátt hlutfall hótela er bókað fyrstu vikurnar í júní, júlí, ágúst og september í 9 vinsælum borgum. Í öllum tilvikum var gert ráð fyrir dvöl í 6 nætur fyrir tvo fullorðna í einu herbergi. Dohop rekur hótelvefinn í samstarfi við Booking.com, og er þar að finna nærri því 650,000 mögulega gistimöguleika í 212 löndum.