„Hvaða hagsmuni er verið að verja?“

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, kynnti vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, kynnti vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun. Mynd/Golli

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að engum ætti að dyljast skilaboð Seðlabankans til vinnumarkaðarins. „Þeir sem koma verst út úr þessu eru þeir sem eru með lág laun vegna þess að þeir verða fyrstir til þess að missa vinnuna. Ég skil ekki hvaða hagsmuni er verið að verja í þessari baráttu,“ sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur SÍ, við kynningu á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar.

Pen­inga­stefnu­nefnd hef­ur ákveðið að halda vöxt­um bank­ans óbreytt­um í 4,5%, en í ákvörðun nefndarinnar segir að líklega þurfi að hækka vexti á næsta fundi nefnd­ar­inn­ar í júní.

Hætta á uppsögnum

Hætta er á því að launahækkanir sem eru langt umfram framleiðnivöxt valdi því að fyrirtæki leiti leiða til að draga úr launakostnaði, t.d. með því að hægja á ráðningum eða grípa til uppsagna.

„Trúir fólk því í alvöru að verðbólga verði 2,5% til lengdar þegar laun eru að hækka um tugi prósenta?“ spurði Þórarinn og vísaði til verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Í máli Þórarins kom fram að 30% almenn launahækkun á næstu þremur árum gæti valdið því að verðbólga verði um það bil 1 prósentu meiri í ár en í grunnspánni, því sem næst 3 prósentum meiri á því næsta og hátt í 4 prósentum meiri árið 2017.

Áhrifin eru enn meiri ef kjölfesta langtímaverðbólguvæntinga losnar og gæti verðbólga þá orðið u.þ.b. 5 prósentum meiri en í grunnspá frá árinu 2017. Miðað við núverandi grunnspá felur þetta í sér að verðbólga gæti orðið um 6-6½% á næsta ári og um 7-8% árið 2017.

Vextir fimm prósentum hærri?

„Meginástæða þess að verðbólga eykst ekki enn meira en hér er sýnt er að peningastefnunni er beitt þannig að vextir hækka,“ sagði Þórarinn. Vextir Seðlabankans gætu þannig orðið um 1½ prósentu hærri í ár en í grunnspánni og um 3½ prósentu hærri frá árinu 2017. Þá gæti þurft að hækka þá enn frekar þannig að þeir verði ríflega 5 prósentum hærri en ella frá árinu 2017.

Fyrirtæki munu þá bregðast við hærri kostnaði og vöxtum með því að draga úr fjárfestingu og hagræða. Heildarvinnustundir dragast saman og atvinnuleysi eykst. Allt þetta veldur því að hagvöxtur verður minni en ella.

„Við vörum eindregið við þessu,“ sagði hann. „Við erum oft búin að reyna þetta og það er alltaf það sama. Þetta skilar ekki árangri.“ Þá bætti hann einnig við að verið væri að stefna samkeppnisbata þjóðarinnar í voða og að við værum að verðleggja okkur út úr samkeppni við önnur lönd. „Ferðamannaiðnaðurinn mun illa þola þetta.“

Ekki öll nótt úti enn

Aðspurður hvers vegna vextir væru ekki bara hækkaðir strax fyrst þetta væru horfurnar sagði Már að þegar grannt væri skoðað mætti finna rökstuðning fyrir því í ákvörðun nefndarinnar. „Þetta er mikið bókmenntaverk og það verður að rýna í blæbrigði tungumálsins. Þetta er eitthvað sem hefur ekki gerst,“ sagði Már. „Við erum að senda sterk skilaboð um að við munum bregðast við,“ sagði hann. „Það er ekki öll nótt úti enn varðandi þetta. Það er ekki búið að semja,“ sagði hann og bætti við að það gæti skipt máli hvernig launahækkanirnar dreifast yfir tíma. 

Þá sagði hann við Íslendingar væru ekki staddir á níunda áratugnum og að gengið yrði ekki bara fellt ef í óefni stefnir þar sem hagkerfið og fjármálakerfið hafa breyst á árunum eftir hrun.

Már sagði að sumir myndu vissulega njóta töluverða raunlaunahækkana ef gengið verður að núverandi kröfum vinnumarkaðarins en hins vegar myndu aðrir missa vinnuna. 

Þá bætti Þórarinn við að svigrúmið væri mismunandi milli atvinnugreina og að sumir gætu t.d. tekið þetta af arðgreiðslum. Hins vegar væri verið að biðja um þessar hækkanir í öllum atvinnugreinum.

Frétt mbl.is: Vaxtahækkun væntanleg í júní

Peningamál Seðlabankans

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur SÍ
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur SÍ Rósa Braga
Seðlabankinn hefur áhyggjur af kjaradeilunum.
Seðlabankinn hefur áhyggjur af kjaradeilunum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka