Ístak hf., dótturfélag Landsbankans hf., hefur selt fyrirtækið Ístak Ísland ehf. danska verktakafyrirtækinu Per Aarsleff AS sem átti hagstæðasta tilboðið í félagið. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Söluferlið hófst með auglýsingu þann 22. janúar 2015 og var opið öllum áhugasömum fjárfestum sem stóðust hæfismat og gátu sýnt fram á fjárfestingargetu umfram 500 milljónir króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.
Þar segir að Per Aarsleff AS sé rótgróið og sterkt félag sem er skráð á Nasdaq OMX Copenhagen. Árstekjur félagsins nema jafnvirði um 170 milljörðum íslenskra króna. Félagið sinnir verktöku í mörgum löndum, meðal annars á Grænlandi og nú einnig á Íslandi. Starfsmenn eru um 4.500 talsins.
Ístak Ísland ehf. byggir starfsemi sína á 45 ára reynslu Ístaks á Íslandi, Noregi, Grænlandi og í Færeyjum. Markaðssvæði Ístaks Íslands ehf. er Ísland, Grænland og Færeyjar. Félagið sérhæfir sig í verktöku á sviði virkjana, jarðganga, hafnarmannvirkja, stærri iðnaðarmannvirkja og stálsmíði og er einn fárra innlendra valkosta þegar kemur að framkvæmdum og þjónustu við virkjanir og stóriðju.
Ístak hf. mun áfram sinna samningsbundnum verkefnum í Noregi.