Eins og að taka tappa úr flösku

Meiri fóðurkostnaður fylgir fleiri dýrum. Það kemur sér illa þar …
Meiri fóðurkostnaður fylgir fleiri dýrum. Það kemur sér illa þar sem búið er tekjulaust í verkfallinu. Mynd úr safni

„Tjónið sem mitt fjölskyldubú er að verða fyrir er gríðarlegt. Jafnvel þótt verkfallið myndi leysast í dag,“ segir Ingvi Stefánsson, svínabóndi í Teigi við Akureyri. 

„Þegar það safnast svo mikið fyrir af kjöti verður þetta eins og að taka tappa úr flösku þegar verkfallið loksins leysist. Þetta ryðst allt inn á markaðinn á stuttum tíma og maður óttast að það muni leiða til mikils verðfalls,“ segir Ingvi og bætir við að verð á kjöti til bænda hafi þegar lækkað mikið á síðustu tveimur árum. „Staðan var nú orðin þröng fyrir,“ segir hann.

Engar tekjur en meiri kostnaður

Slátrun hef­ur nú legið niðri í tæpar fjórar vikur, eða frá 20. apríl, þegar verk­fall fé­lags­manna BHM í Dýra­lækna­fé­lagi Íslands hófst. Undanþága var þó veitt fyrir slátrun í síðustu viku gegn því að kjötið yrði ekki sett á markað held­ur ein­göngu í fryst­ingu.

Ingvi segir að það hafi dregið úr þrengslum við það en dýrum á búinu hefur fjölgað hratt frá því að verkfallið hófst. Því fylgir meiri fóðurkostnaður sem erfitt er að eiga við þegar búið hefur verið tekjulaust í um fjórar vikur.

Undanþágubeiðni hafnað

Svínabændur sendu inn aðra undanþágubeiðni í dag þar sem annars vegar var óskað eftir því að fá að setja kjötið á markað og hins vegar að fá að slátra og setja kjötið í frost líkt og áður hefur verið leyft. Ingvi segir að báðum beiðnum hafi verið hafnað án rökstuðnings í dag og því megi búast við enn meiri þrengslum á búinu.

Þá bætir Ingvi því við að hann standi frammi fyrir miklum fjárfestingum á næstunni sökum þess að ráðast þarf í úrbætur til þess að mæta auknum kröfum um aðbúnað dýra.

„Ég vildi óska þess að ég gæti verið bjartsýnni en staðan er bara grafalvarleg,“ segir Ingvi.

Ingvi Stefánsson
Ingvi Stefánsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK