„Tjónið sem mitt fjölskyldubú er að verða fyrir er gríðarlegt. Jafnvel þótt verkfallið myndi leysast í dag,“ segir Ingvi Stefánsson, svínabóndi í Teigi við Akureyri.
„Þegar það safnast svo mikið fyrir af kjöti verður þetta eins og að taka tappa úr flösku þegar verkfallið loksins leysist. Þetta ryðst allt inn á markaðinn á stuttum tíma og maður óttast að það muni leiða til mikils verðfalls,“ segir Ingvi og bætir við að verð á kjöti til bænda hafi þegar lækkað mikið á síðustu tveimur árum. „Staðan var nú orðin þröng fyrir,“ segir hann.
Slátrun hefur nú legið niðri í tæpar fjórar vikur, eða frá 20. apríl, þegar verkfall félagsmanna BHM í Dýralæknafélagi Íslands hófst. Undanþága var þó veitt fyrir slátrun í síðustu viku gegn því að kjötið yrði ekki sett á markað heldur eingöngu í frystingu.
Ingvi segir að það hafi dregið úr þrengslum við það en dýrum á búinu hefur fjölgað hratt frá því að verkfallið hófst. Því fylgir meiri fóðurkostnaður sem erfitt er að eiga við þegar búið hefur verið tekjulaust í um fjórar vikur.
Svínabændur sendu inn aðra undanþágubeiðni í dag þar sem annars vegar var óskað eftir því að fá að setja kjötið á markað og hins vegar að fá að slátra og setja kjötið í frost líkt og áður hefur verið leyft. Ingvi segir að báðum beiðnum hafi verið hafnað án rökstuðnings í dag og því megi búast við enn meiri þrengslum á búinu.
Þá bætir Ingvi því við að hann standi frammi fyrir miklum fjárfestingum á næstunni sökum þess að ráðast þarf í úrbætur til þess að mæta auknum kröfum um aðbúnað dýra.
„Ég vildi óska þess að ég gæti verið bjartsýnni en staðan er bara grafalvarleg,“ segir Ingvi.