Veitti verðlaun á Bessastöðum

Forseti Íslands veitti Icelandair Group Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2015 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Var það Björgólfur Jóhannsson forstjóri fyrirtækisins sem veitti þeim viðtöku. Rithöfundurinn Arnaldur Indriðason fékk sérstaka heiðursviðurkenningu við sama tilefni.

Sú viðurkenning sem Arnaldur hlaut er veitt þeim einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð.

Icelandair Group hlaut sín verðlaun fyrir „þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í að laða til landsins erlenda gesti og greiða för landsmanna til annarra landa, með þróun viðskiptahugmyndar, sem hefur í raun breytt upplifun á landfræðilegri stöðu landsins,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu. 

„Sú hugmynd að nýta legu Íslands sem styrkleika í alþjóðaflugi og stofna til tengiflugs um Keflavíkurflugvöll var ekki sjálfgefin og henni fylgdi mikil rekstrarleg áhætta. En hugmyndin gekk upp og nú er leiðarkerfi Icelandair undirstaða velgengi fyrirtækisins og ein forsenda þess vaxtar sem verið hefur í ferðaþjónustunni hér á landi.“

Icelandair Group er eitt stærsta fyrirtæki landsins með tæplega 4.000 starfsmenn þegar mest lætur. Á árinu 2014 námu heildartekjur samstæðunnar yfir 1,1 milljarð bandaríkjadala, eða um 140 milljörðum íslenskra króna. Jukust tekjurnar um 9% á milli ára. Þá telja forsvarsmenn fyrirtækisins ástæðu til að vera bjartsýnn um áframhaldandi vöxt á komandi árum.

Jákvætt umtal um land og þjóð

Sem fyrr segir fékk Arnaldur Indriðason rithöfundur sérstaka heiðursviðurkenningu við sama tilefni. Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð.

Á síðasta ári hlaut Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar, viðurkenninguna en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Kristin Sigmundsson óperusöngvara, Björk Guðmundsdóttur söngkonu og ljósmyndarann Ragnar Axelsson, eða RAX.

Er þetta í 27. skiptið sem sem Útflutningsverðlaunin eru veitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK