Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi segir miklar kröfur um launahækkanir ógna nýfengnum stöðugleika landsins. Sendinefndin hefur verið hér á landi í tvær vikur og fundað með ráðamönnum í tengslum við eftirfylgni við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og sjóðsins.
Fulltrúar nefndarinnar kynntu greiningu sýna á efnahagsástandinu á Íslandi á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum í morgun.
Í greiningu AGS segir að þrátt fyrir að kjarasamningar liggi ekki fyrir sé líklegt að niðurstaðan muni fela í sér hækkanir sem muni óhjákvæmilega leiða til töluverðrar aukningar verðbólgu og grafa undan efnahagsbatanum. Til þess að komast hjá því eigi allir samningsaðilar að vinna saman að því að ná kjarasamningum sem fela í sér hækkanir í samræmi við framleiðnivöxt og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
Verði hins vegar fallist á kröfurnar þurfa stjórnvöld að bregðast við með viðeigandi hætti og Seðlabankinn að herða taumhald peningastefnunnar. Aðlaga þarf fjárlög næsta árs til þess að draga úr innlendum eftirspurnarþrýstingi, t.d. með breytingum á virðisaukaskattskerfinu og aðgerðum til þess að milda áhrifin á tekjulægstu hópana.
Mögulegar breytingar á tekjuskattskerfinu, þar sem til greina hefur komið að hækka persónuafslátt og að fækka þrepum í tekjuskattinum úr þremur í tvö, eru þá sagðar geta komið að gagni, en AGS bætir þó við að gæta skuli varúðar. Annars eru ríkisfjármál almennt sögð vera í góðri leið þar sem vel hefur tekist að greiða upp skuldir í samræmi við áætlun. Það ætti að skapa rými fyrir kostnaðarsamar aðgerðir, líkt uppbyggingu Nýja Landspítalans.
Þrátt fyrir líklegan óstöðugleika á næsta leyti er Ísland þá sagt virðast tilbúið til þess að taka síðustu skrefin í afnámi gjaldeyrishafta.