Stefnt er að því að afnema tolla á fatnað og skó, jafnvel strax í haust. En hvað myndi það spara okkur? Lagður er 15% tollur á þessar vörur hér á landi auk þess sem 24% virðisaukaskattur er lagður á vöruna að viðbættu tollverði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kveðst stefna að því að afnema tollana og von er á skýrslu starfshóps um tollamál á næstu dögum. Nefndin var m.a. beðin um að skoða möguleg áhrif af afnáminu.
Frétt mbl: Stefnir að afnámi tolla á föt og skó
Hér eru nokkur dæmi um verðlækkanir sem gætu átt sér stað ef tollarnir verða afnumdir:
Nike Free hlaupaskór hafa notið mikilla vinsælda hér á landi á liðnum árum. Í vefverslun Icepharma, innflutningsaðila Nike, kostar parið 22.650 krónur. Án tolls og virðisaukaskatts kosta skórnir 15.883 krónur og þar af nemur tollurinn 2.382 krónum. Sé virðisaukaskattur tekinn með munu Nike Free skórnir kosta 19.695 krónur úti í búð og nemur sparnaðurinn því um 2.955 krónum.
Sumarkjóll á börn úr Zöru sem kostar í dag 5.495 krónur ber 578 krónu toll og 1.064 krónu virðisaukaskatt og myndi eftir afnám vörugjalda kosta 4.780 krónur og nemur sparnaðurinn því alls 715 krónum.
Jakkaföt frá merkinu Tiger of Sweden, sem fást í verslunum, NTC kosta 98.995. Án tolls og virðisaukaskatts kosta jakkafötin um 69.420 krónur. Þar af er 15% tollur sem nemur 10.413 krónum og virðisaukaskattur er nemur 19.160 krónum. Verði tollurinn afnuminn munu sömu fötin kosta um 86.080 krónur og nemur sparnaðurinn alls 12.915 krónum.
30% tollur + 24% VSK?
Samtök verslunar og þjónustu hafa bent á að fata- og skóverslun hér á landi sé dæmi um verslun sem býr við mjög erfiða samkeppnisstöðu vegna óhagstæðs tolla- og skattaumhverfis.
Auk 15% tollsins ber stór hluti af þessum vörum annan 15% toll sem Evrópusambandið leggur á við innflutning aðildarríkja þess. Það má því segja að á margar vörur sé lagður 30% tollur auk 24% virðisaukaskatts.
„Þetta er risastórt skref og þessu ber að fagna,“ segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Hún segir kannanir sýna að að þetta komi tekjulágum einna best þar sem þeir séu síður að fara til útlanda og koma heim með fullar ferðatöskur af fötum.
Hún bendir á að Rannsóknarsetur verslunarinnar hafi sýnt fram á að fataverslun á Íslandi eigi undir högg að sækja þar sem aðrir vöruflokkar hafa sótt frekar í sig veðrið. „Við höfum verið að ýta undir verslun í öðrum löndum,“ segir hún og bætir við að hún hafi vissu fyrir því að samstaða sé um málið milli allra flokka.
„Ég vil nú ekki vera með frekju og skyggja á þetta, en næsta skref ætti síðan að felast í því að færa fatnað og skó niður í neðra þrep virðisaukaskattsins. Þá værum við komin á sama stað verslanir erlendis,“ segir Margrét.