Hundruð tonna af kjöti, ostum, bökunarkartöflum og fleiri búvörum bíða nú tollafgreiðslu og liggja undir skemmdum þar sem þær fást ekki afgreiddar vegna verkfalls dýralækna. Samkvæmt lögum er aðkoma dýralæknis ekki nauðsynleg en Matvælastofnun hefur ekki talið sér heimilt að stimpla nauðsynleg skjöl til þess að hægt sé að leysa út vörurnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda þar sem segir að fyrirtæki í röðum félagsins leiti nú til Matvælastofnunar um að stofnunin sinni því hlutverki sínu að votta innflutta búvöru og komi í veg fyrir gríðarlegt tjón sem gæti orðið ef innfluttar matvörur fá ekki tollafgreiðslu.
Bent er á að engin lagaleg krafa sé gerð til þess að innlendur dýralæknir stimpli skjölin. Heilbrigðisvottorð með vörum frá EES svæðinu séu gefin út af þarlendum dýralæknum, í samræmi við sömu heilbrigðisreglur og gilda á Íslandi. Þá er bent á að þótt að svo væri, sé bæði forstjóra og yfirdýralækni, sem hvorugir eru í verkfalli, heimilt að stimpla skjölin.
Í erindi lögmanns innflutningsfyrirtækisins Innness til Matvælastofnunar segir að synjun stofnunarinnar á að stimpla skjölin sé því ólögmæt.
„Verði ekki orðið við kröfunni muni það valda tuga milljóna króna tjóni, sem fyrirtækið muni sækja á hendur stofnuninni ef til kemur,“ segir í bréfinu.
„Samkvæmt dómafordæmum geta yfirmenn stofnunarinnar gengið í störf undirmanna í því skyni að bjarga verðmætum,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA.