Tap íslenska tölvuleikjaframleiðandans CCP jókst um tæpa sex milljarða milli ára og nam alls rúmum 8,7 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári. Tekjur drógust saman, skuldir jukust og starfsmönnum var fækkað.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins námu tekjur félags um 68,5 milljónum dollara eða 9,1 milljarði króna, og drógust saman um einn milljarð króna milli ára. Nánast allar tekjur fyrirtækisins koma frá viðskiptavinum utan Íslands að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi.
Leikjaþróunarkostnaður jókst töluvert milli ára, eða um tæpa fjóra milljarða króna, og nam tæpum 11,5 milljörðum króna.
Líkt og mbl hefur áður greint frá er nýjasti leikurinn frá CCP, EVE: Valkyrie, tilbúinn til útgáfu, en hins vegar er beðið eftir nauðsynlegri tækni til þess að hægt sé að spila hann. Leikurinn er einn af þeim fyrstu í heimi sem þróaðir eru fyrir nýja tækni í sýndarveruleika þar sem spilarinn þarf að vera með þrívíddargleraugu. Þau eru hins vegar ekki komin út.
„Það voru margir að vonast til þess að gleraugun kæmu út í lok síðasta árs, en svo varð ekki,“ sagði Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP í samtali við mbl í mars sl.. „Við bíðum áfram eftir útgáfudeginum,“ sagði hann.
Eignir CCP drógust mikið saman milli ára eða um 9,5 milljarða króna og námu 4,4 milljörðum, samanborið við 13,9 milljarða á síðasta ári.
Eigið fé var neikvætt um rúma tvö milljarða króna.
Líkt og fyrr segir var CCP einnig rekið með tapi á síðasta ári, þótt það hafi verið mun minna. Í samtali við mbl í vor sagði Eldar að fyrirtækið hefði komist ágætlega frá erfiðum tímum.
Í ársreikningnum kemur fram að stöðugildum hjá CCP hafi verið fækkað úr 537 í 431. Stöðunum hefur því alls fækkað um 106. Líkt og áður hefur verið greint frá voru 27 starfsmenn í höfuðstöðvunum í Reykjavík látnir fara en í samtali við mbl í mars sagði Eldar að ekki væri von á frekari uppsögnum.
CCP á fimm dótturfélög, þar af er eitt íslenskt, CCP GI hf., eitt bandarískt, tvö bresk og annað í Sjanghæ.
Hluthafar félagsins eru alls 434 talsins og eru margir þeirra starfsmenn, þar sem þeim býðst jafnan kaupréttur á hlutabréfum. Stærsti hluthafinn er hins vegar félgið NP ehf. Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á 45% hlut í því félagi, auk þess sem Novator ehf., á beint 0,3% hlut til viðbótar. Eigandi 55% hlutar í NP ehf. er félagið ALMC, sem er gamli Straumur.
Næst stærsti hluthafinn er Teno Investments S.Á.R.L, sem er í eigu bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, á 5,22% hlut.
Ekki náðist í stjórnendur CCP við vinnslu fréttarinnar.