Huppa kemur til Reykjavíkur

Gunnar Már Þráinsson, Telma Finnsdóttir, Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir …
Gunnar Már Þráinsson, Telma Finnsdóttir, Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir Rúnarsson með ísinn góða. mbl.is/Eggert

„Ísbúð er nokkuð sem fólk tengir sterkt við Álfheimana og finnst ekki mega missa sín. Við höfðum lengi haft í huga að færa út kvíarnar og þegar ísbúðin þar var föl gripum við tækifærið,“ segir Gunnar Már Þráinsson, einn eigenda ísbúðarinnar Huppu. Nokkur ár eru síðan Huppa á Selfossi var opnuð og hafa viðtökurnar þar í bæ verið góðar. Gunnar Már og hans fólk vildu byggja á því og horfðu til Reykjavíkur, því vel hefur gengið eystra þar sem fólk, til dæmis úr borginni, stoppar gjarnan og fær sér ís.

Svellkaldur og bragðríkur

Fyrsta ísbúðin í Álfheimum var opnuð árið 1979, þá undir hinu ameríska merki Dairy Queen. Með næstu eigendum varð nafnið látlausara – en nafnið Huppa er oft gefið gæfum kúm. „Vörumerkið er þekkt og það er okkar styrkur. Huppa á því fullt erindi yfir Hellisheiðina til Reykjavíkur úr heimahögum sínum í mjólkurbænum eins og margir kalla Selfoss,“ útskýrir Gunnar Már.

Í byrjun gekk Huppufólk til samstarfs um hráefni við Emmess og þar á bæ hafa verið þróaðar tvær uppskriftir að ís sem síðan hafa verið í öndvegi hjá Huppu. Þetta hefur virkað vel. Sveitaís er önnur þessara afurða, það er þéttur, bragðríkur rjómaís, og hin er Huppuís, svellkaldur mjólkurís sem fengið hefur góðar viðtökur. Annars fæst ísinn í tugum útgáfa og bragðtegunda, svo sem kúluísar í úrvali, hristingar, bragðarefir og svo mætti lengi áfram telja.

Eigendur Huppu eru tvö pör á Selfossi, þau Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir Rúnarsson – og Telma Finnsdóttir og Gunnar Már. „Konurnar sjá alfarið um þennan daglega rekstur og við Sverrir erum bara í því að skipta okkur af,“ segir Gunnar Már og hlær.

Ísinn er besta minningin

„Það er annars merkilegt hvað það er ríkt á Íslandi að fá sér ís. Ef þú lest minningargreinar í Mogganum er athyglisvert að sjá að margir eiga sínar allra bestu minningar frá æskuárunum úr skemmtilegum bíltúrum með ömmu og afa niður að höfn þar sem endirinn var sá að kaupa ís sem sullaðist niður í sætin á bílnum. Því fylgir kannski pirringur í nokkrar mínútur en svo verður þetta bara skemmtilegt þegar litið er til baka. Á Selfossi er íshefðin líka mjög sterk; hjá mörgum er þetta fjölskyldusport sem kostar alveg sáralítið en er afar skemmtilegt. Ég hef kannski ekki velt þessari hefð mikið fyrir mér en kannski er ísrúnturinn eitthvað svipað og þegar bandaríska vísitölufjölskyldan kaupir hamborgara og Þjóðverjar taka snitsel á veitingastöðum,“ segir Gunnar Már, sem bætir við að vel hafi verið staðið að undirbúningi landnáms Huppu í Reykjavík og gangi gestir og gangandi því að gæðunum vísum í búðinni sem verður opnuð í dag, föstudag.

mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK