Björnsbakarí hefur bakað öll pylsubrauð fyrir Bæjarins Beztu Pylsur í 78 ár eða alveg frá stofnun matarvagnsins fræga. Á síðustu árum hefur Gæðabakstur séð um að baka pylsubrauðin um helgar og á öllum rauðum dögum.
Frá og með 1. september 2015 mun Gæðabakstur baka allt fyrir Bæjarins Beztu Pylsur alla daga, allan ársins hring. Þar með hættir Björnsbakarí eins áður segir að baka pylsubrauðin eftir 78 ár.
Eigendur á Björnsbakarí á Skúlagötu hafa sett bakaríið á sölu. Þetta kemur fram hjá Veitingageiranum.
Bæjarins Beztu Pylsur er eitt elsta fyrirtæki miðborgar Reykjavíkur og fagnaði fyrirtækið 70 ára afmæli árið 2007. Fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi.
Bæjarins Beztu Pylsur er staðsett á sex stöðum, þ.e. Tryggvagötu á móti Kolaportinu, í Hagkaup í Smáralindinni, Hagkaup í Skeifunni, Holtagörðum, á Stjörnutorgi í Kringlunni og ferðavagninn á Eiðistorgi.
Á lista Thrilllist sem birtur var nú á dögunum yfir götumat sem bestur er í öllum heiminum er Reykjavík í 13. sæti og má þakka Bæjarins Beztu fyrir það.