Hann átti einkaþotu, Ferrari sportbíl, íbúð í London og milljarða á bankabók. Það hvarf allt í hruninu 2008. Nú er hann aftur kominn á réttan kjöl og eignir hans nema um 1,28 milljörðum dollara, eða um 173 milljörðum króna. Þetta segir í grein Politiken um athafnamanninn Björgólf Thor Björgólfsson.
Greinin ber yfirskriftina „Fjármálaskúrkur Íslands er snúinn aftur sem milljarðamæringur“.
Í greininni er stiklað á sögu Björgólfs fyrir fjármálahrun og nefnt að Íslendingar hafi verið stoltir af afrekum hans erlendis. Síðan hafi hann beðið þjóðina afsökunar eftir að almenningur þrammaði að Alþingi vopnaður pottum og pönnum.
Rætt er við blaðamanninn Sigrúnu Davíðsdóttur þar sem hún segir Íslendinga hafa upplifað sig stærri í hinum stóra heimi með farsæla viðskiptamenn í farabroddi.
Farið er yfir gjaldþrot Landsbankans og reiðina sem Íslendingar upplifðu þegar fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg. Björgólfur, einn ríkasti maður veraldar, rambaði sjálfur á barmi gjaldþrots. Kröfuhafar hirtu flugvélina og húsin.
Þá segir að Björgólfur hafi hins vegar lokið skuldauppgjöri á síðasta ári og að leiðin hafi legið upp á við síðan. Það megi að miklu leyti þakka árangri félaganna Actavis og og Play.
Frétt mbl.is: Skuldauppgjöri Björgólfs lokið
Sigrún bendir á að vegna þáttar hans í íslensku atvinnulífi á árunum eftir hrun, skuldauppgjörsins og nú síðast bókarinnar, hafi Íslendingar hlíft Björgólfi að nokkru leyti á meðan reiðin hefur frekar beinst að öðrum lykilmönnum í fjármálalífinu fyrir hrun.
„Líkt og dýr sem lærir af frumskóginum óska ég þess að verða klókari af reynslunni,“ segir loks í grein Politiken, þar sem vitnað er til orða Björgólfs, í bók hans sem kom út á síðasta ári.