Við þurfum að hafa sjálfstraust til þess að viðurkenna að Ísland sé bara nokkuð gott en geti orðið enn betra. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, við kynningu á skýrslu um samkeppnishæfni Íslands í morgun.
Í úttekt IMD um samkeppnishæfni 61 ríkis kemur færist Ísland upp um eitt sæti og situr í því 24. Ísland er neðst Norðurlandanna en Noregur hefur sterkustu stöðuna og situr í sjöunda sæti. Bandaríkin eru í fyrsta sæti.
Sigmundur benti á að niðurstöðurnar væru annars vegar byggðar upp á hlutlægum mælikvörðum og hins vegar huglægum spurningum sem lagðar eru fyrir stjórnendur fyrirtækja.
Í máli Björns Brynjúlfs Björnssonar, hagfræðings hjá Viðskiptaráði Íslands kom fram að í skýrslunni segi að efnahagsleg frammistaða Íslands hafi versnað vegna þess að hagvöxtur er verri auk þess sem hagvaxtarhorfur hafa lækkað.
Aftur á móti hefur stökkið verið mest hvað bjartsýni stjórnenda varðar.
Sigmundur sagði að undanfarið hefði mikið verið rætt um stöðugleika í þjóðfélaginu á sama tíma og stjórnvöld eru að leggja lokahönd á undirbúningsvinnu við losun fjármagnshafta. Það séu tveir þættir sem hafa gríðarleg áhrif á samkeppnishæfni þjóðar.
Hann sagði að bjartsýni væri vonandi að taka við og sérstaklega hvað yngri kynslóðina varðar sem mikilvægt er að horfi björtum augum fram á veginn.
„Við viljum gera enn betur og sjáum að í samanburði við aðrar þjóðir sem næst okkur standa að við höfum tækifæri til þess,“ sagði hann. Sigmundur benti þó á að þjóðin stæði frammi fyrir miklum áskorunum á næstu dögum þar sem ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að ná árangri í kjaraviðræðum og vinna að losun fjármagnshafta.
Hann benti á að við stæðum nú frammi fyrir fleiri valkostum en áður fyrr en um leið þyrfti að taka ákvarðanir. „Sóknarfærin eru mörg,“ sagði hann. „En við verðum að þola að viðurkenna þann árangur sem hefur náðst og ákveða að halda áfram á sömu braut,” sagði Sigmundur.