Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið tekur undir þá alvarlegu stöðu sem uppi er varðandi framboð á matvælum á innlendum markaði. Á það jafnt við um innflutning sem og starfsskilyrði innlendra framleiðenda.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við bréfi Samtaka verslunar og þjónustu þar sem gagnrýnt var að ekki hvorki hefði verið unnt að slátra búfénaði til sölu né að tollafgreiða þær matvörur sem borist hafa til landsins frá því að verkfall starfsmanna Matvælastofnunar skall á.
Þá segir í svarbréfinu að ráðuneytið hefur nú til athugunar reglur og verklag við eftirlit með innflutningi matvæla sem koma frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá bendir ráðuneytið á að aflað hafi verið umsagnar MAST og embættis tollstjóra um framkvæmd eftirlitsins.
Hins vegar er í bréfinu bent á það að ráðuneytið mun ekki geta lokið athugun á framkvæmd innflutningseftirlits fyrr en sérfræðingar MAST á inn- og útflutningssviði snúa aftur til vinnu úr verkfalli BHM.
Kjötvörur innan EES lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í útflutningsríkinu en eftirlit í viðtökuríki skal eingöngu takmarkast við stikkprufur en ekki reglubundið eftirlit, líkt og raunin er hér á landi.
Í tilkynningu frá SVÞ segir að samtökin fagni því að núverandi fyrirkomulag sé til skoðunar þar sem það hefur verið baráttumál hjá SVÞ um langt skeið að tryggja að eftirlit með matvælum taki mið af reglum EES-samningsins.
Hins vegar harma samtökin að ekki sé unnt að tryggja innflutning á matvælum í núverandi ástandi með hliðsjón af reglum EES-samningsins á því sviði.
Meðan verkfallið hefur staðið yfir hefur ekki verið unnt að tollafgreiða innflutt matvæli þar sem ekki er unnt að leita eftir afgreiðslu fulltrúa MAST varðandi slíkan innflutning í samræmi við íslenskar lagakröfur.