Fyrsta kvennaklíníkin er á Broadway

Teikning af Klíníkinni.
Teikning af Klíníkinni.

Fyrsta sérhæfða kvennaklíníkin á Íslandi verður opnuð 19. júní, á hátíðisdegi kvenréttinda. Hún er hluti af starfsemi Klíníkurinnar Ármúla, nýrrar lækninga- og heilsumiðstöðvar.

Klíníkin verður í húsnæði gamla Broadway við Ármúla 9. Í tilkynningu segir að Klíníkin eigi erindi við fólk af báðum kynjum en þjónusta við konur verður þar í fyrirrúmi. „Starfsemin eykur þjónustu íslenska heilbrigðiskerfisins, eflir það og styrkir.“

Þá segir að á Klíníkinni starfa sérfræðingar í fremstu röð á sínum sviðum. Alls verða þar fjórar skurðstofur með tækjum og búnaði af nýjustu og bestu gerð, tvær verða teknar í notkun í ágúst og tvær snemma árs 2016. Tækjabúnaður á Klíníkinni uppfyllir ströngustu gæðakröfur á alþjóðlegan mælikvarða.

Allar helstu aðgerðir kvensjúkdómalækninga verða framkvæmdar á skurðstofunum, meðáherslu á kviðsjáraðgerðir til að lágmarka inngrip og auka öryggi.

Brjóstamiðstöð, aðgerðir og lýtalækningar

Á Klíníkinni verður sérhæfð brjóstamiðstöð fyrir konur sem greinast með mein í brjósti. Þar verður brjóstaröntgenþjónusta og skurðaðgerðir en jafnframt ráðgjöf og þjónusta við konur með BRCA genið.

Áhersla verður á grindarbotnsaðgerðir, þvagfæraaðgerðir, neðra kviðarhol og almennar skurðaðgerðir fyrir konur og karla.

Á Klíníkinni verður líka lýtalækningamiðstöð fyrir helstu fegrunaraðgerðir og minniháttar lýtaaðgerðir.

Íslenskir sérfræðingar erlendis koma heim til starfa á Klíníkinni

Í starfsmannahópi Klíníkurinnar eru 11 sérfræðilæknar sem sumir hverjir hafa starfað erlendis um árabil eða jafnvel áratugum saman, einkum í Bretlandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Danmörku. Þeir hafa valið að taka þátt í að búa til sameiginlegan starfsvettvang hér heima, Klíníkina Ármúla.

Klíníkin er rekin á sama hátt og aðrar sjálfstæðar lækningastöðvar þar sem sérfræðilæknar starfa eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Greiðsluþátttaka sjúklinga er með sambærilegum hætti og annars staðar.

„Sjálfstæðar lækningastöðvar hafa bætt heilbrigðiskerfið og aukið við gæði þjónustu þess við sjúklinga. Starfsemi þeirra hefur til dæmis orðið til að stytta biðlista og létta álagi af opinberum heilbrigðisstofnunum,“ segir í tilkynningu.

Klíníkin og tengd heilsustarfsemi skapa störf fyrir alls um 90 manns við greiningu, aðgerðir og tengda þjónustu, sjúkraþjálfun og endurhæfingu, þegar starfsemin er komin í fullan rekstur. Samvinna er höfð að leiðarljósi til að veita heildstæða, gagnreynda læknaþjónustu.

Starfsfólk Klíníkurinnar á samtals 80% í félaginu

Að Ármúla 9 var áður veitinga- og skemmtistaðurinn Broadway en nú hefur húsið verið sérhannað fyrir starfsemi Klíníkurinnar á um 3.000 fermetrum. Framkvæmdir hófust snemma árs 2015 og eru langt komnar. Framkvæmdakostnaður í rýminu, þar sem Broadway var áður, nemur um einum milljarði króna.

Reitir fasteignafélag á húsið og gerður hefur verið leigusamningur til 20 ára. Þarna verða undir sama þaki Klíníkin, sjúkraþjálfun, endurhæfing, heilsulind/spa og gistiþjónusta.

Sambýlið við sjúkrahótelið skapar Klíníkinni mikla sérstöðu, ekki síst gagnvart fólki á landsbyggðinni.

Klíníkin starfar náið með Heilsumiðstöðinni að því að tryggja sjúklingum samfellda heilbrigðisþjónustu að Ármúla 9.

Kennslustúka við skurðstofuna

Við eina skurðstofuna verður sérhönnuð kennslustúka sem gerir nemum, sérfræðingum og öðrum kleift að fylgjast með aðgerðum í gegnum gler og ræða við lækna í sérstöku hljóðkerfi á meðan á aðgerð stendur. Þetta er nýmæli á Íslandi.

Þá verður settur upp fjarfundabúnaður á skurðstofum til að læknar Klíníkurinnar, sem margir hverjir tengjast virtum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og Evrópu, geti áfram átt náið samstarf við fagfólk utan Klíníkurinnar, hér á landi eða erlendis.

„Þessi búnaður, og aðgengi að hótel- og veitingaþjónustu að Ármúla 9, gerir Klíníkinni mögulegt að sinna fræðslustarfsemi af ýmsu tagi og efna til funda eða smærri ráðstefna tengdum starfseminni eða almenningsfræðslu fyrir tiltekna hópa sjúklinga, aðstandendur og fleiri.“

Framkvæmdir hafa verið við Hótel Ísland.
Framkvæmdir hafa verið við Hótel Ísland. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK