Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 5,8% frá yfirstandandi ári og verður 5.755 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2016 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 93,4% eigna en lækkar á 6,6% eigna frá fyrra ári.
Hækkunin var meiri á milli ára í fyrra en þá var hún 7,7%.
Fasteignamatið hækkar mest á höfuðborgarsvæðinu, eða um 6,7 prósent. Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 8,5%.
Miðlæg svæði hækka að jafnaði meira en þau sem eru á jaðrinum. Fasteignamat í einstökum hverfum þróast nokkuð misjafnlega. Þannig hækkar matið mest í miðborg Reykjavíkur, frá Bræðraborgarstíg að Tjörninni eða um 16,9% og um 13,4% í Ásahverfi í Garðabær.
Matið hækkar um 12,7% í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Bræðraborgarstígs og um 11,2% í sunnanverðum Þingholtum. Mat lækkar um 1% í Blesugróf.
Fasteignamatið hækkar minnst á Suðurlandi, eða um 2,6 prósent. Þá hækkar það um 4,2% á Suðurnesjum, 2,8% á Vesturlandi, 1,1% á Vestfjörðum, 3,8% á Norðurlandi vestra, 5,2% á Norðurlandi eystra og 2,8% á Austurlandi
Mat íbúðareigna, sem alls eru 127.502, á öllu landinu hækkar samtals um 7,5% frá árinu 2015 og verður samanlagt fasteignamat þeirra 3.844 milljarðar króna í fasteignamatinu 2016. Eins og undanfarin fjögur ár hækkar matsverð íbúða í fjölbýli meira á landinu öllu en mat íbúða í sérbýli.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis í landinu hækkar um 2,3%. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um 2,4% en um 2,2% á landsbyggðinni. Frístundahúsnæði hækkar um 2,7%.
Matið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2015. Það tekur gildi 31. desember 2015 og gildir fyrir árið 2016. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 1. september 2015.