Margrét Gísladóttir, almannatengill og fyrrum aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, stofnaði á dögunum ráðgjafafyrirtækið Taktík.
Fyrirtækið sérhæfir sig í almannatengslum og stefnumótun og samtvinnar markþjálfun inní þá vinnu að því er fram kemur í tilkynningu frá Margréti. „Þegar kemur að miðlun upplýsinga, hvort sem er þegar vel gengur eða á móti blæs, þá er afar mikilvægt að koma réttum skilaboðum á framfæri og það á réttan hátt,” segir Margrét og kveðst leggja áherslu á að velja rétt skilaboð, sniðin að hverjum miðli fyrir sig, þar sem aðgangur sé að gríðarlega fjölbreyttri flóru af miðlunarleiðum í dag.
Að hennar sögn er markþjálfun að ryðja sér rúms hér á landi og æ fleiri fyrirtæki eru farin að bjóða uppá og nýta markþjálfun í daglegum rekstri. „Þá er einmitt gaman að sjá hvað samþætting markþjálfunarinnar við almannatengslin og stefnumótunina gefur mikinn árangur og öll vinna verður skilvirkari”.
Margrét er með diplómu í almannatengslum og markaðssamskiptum frá Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík og menntaður markþjálfi frá sama skóla. Hún starfaði sem sérstakur ráðgjafi ráðherra í forsætisráðuneytinu og sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra þar til í janúar á þessu ári. Þar áður starfaði hún sem almannatengill hjá Árnasonum auglýsingastofu.