Hefðu Lee Buchheit-samningarnir svokölluðu verið samþykktir hefðu greiðslur ríkissjóðs vegna þeirra í dag numið alls 59 milljörðum og miðað við óbreytt gengi pundsins og evru næsta árið hefðu heildargreiðslur ríkissjóðs vegna samninganna numið um 67 milljörðum þegar þeir hefðu verið uppgerðir að fullu 15. júní 2016.
Í frumvarpi að lögum um heimild fjármálaráðherra til að staðfesta samningana sem samþykkt var á Alþingi 2010 var kostnaðaráætlunin hins vegar 47 milljarðar. Þetta kemur fram í svari á vef Vísindavefsins, en Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild HÍ, hefur þar tekið saman gögn um málið. Samningarnir voru aldrei samþykktir, en Munar um 20 milljörðum á þeirri áætlun sem sett var fram árið 2010 og því sem hann reiknar upp í dag.
Samkvæmt þeirri áætlun sem Hersir setur fram hefur vaxtagreiðslur verið 6 milljörðum hærri en áætlað var árið 2010, en rekja má það annars vegar til óhagstæðari þróunar gengis gjaldmiðla en gert var ráð fyrir og hins vegar til þess að greiðslur úr slitabúinu hafa borist aðeins síðar en gert var ráð fyrir.
Eftirstöðvar skuldbindinganna í júní 2016 hefðu einnig verið um 14 milljörðum króna hærri en áætlað var árið 2010 og er helsta ástæða þess styrking breska pundsins gagnvart krónu.
Í samantektinni bendir Hersir þó á að í frumvarpinu hafi verið sett fram fráviksáætlun og voru niðurstöður hennar að ef þróunin yrði mjög hagstæð gætu heildargreiðslur ríkissjóðs jafnvel orðið einungis 12 milljarðar króna en allt að 113 milljörðum yrði þróunin mjög óhagstæð. Þá setur hann þann fyrirvara við áætlunina í dag að hún sé sett fram miðað við þá þróun sem hefur orðið frá því að samningunum var hafnað og að þróun gengis frá þeim tíma hefði getað verið önnur, hvort sem er til styrkingar eða veikingar. Hefði krónan styrkst hefðu greiðslur ríkissjóðs verið lægri en hærri hefði hún veikst.