Vildu áfram hafa höft á Íslandi

Jón Daníelsson, prófessor við LSE.
Jón Daníelsson, prófessor við LSE. mbl.is/Rósa Braga

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði og forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfislæga áhættu við London School of Economics, segir marga sérfræðinga utan Íslands hafa notað reynslu Íslendinga af höftunum til stuðnings tilteknum sjónarmiðum.

Nóbelsverðlaunahafarnir í hagfræði, Paul Krugman og Joseph Stiglitz, séu í þeim hópi.

„Ísland hefur verið notað af ákveðnum aðilum erlendis. Má þar nefna fræga hagfræðinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hafa notað Ísland til að réttlæta skoðanir á því hvernig fyrirkomulag á fjármálamörkuðum á að vera. Þess vegna hefur verið alþjóðlegur vilji til þess að viðhalda höftunum. Ísland er þá notað sem kennslubókardæmi um nýja hugsun varðandi fyrirkomulag fjármálamarkaða og eftirlit.

Maður rekst á mikið af svona fólki í akademíunni og líka innan stofnanageirans. Það er mikið deilt um fyrirkomulag reglugerða til að tryggja kerfislægan fjármálastöðugleika. Hvað eiga að vera miklar reglur um fjármálamarkaði? Margir vilja hafa meiri stjórn á flæði peninga, enda geti flæði peninga inn og út úr löndum valdið óstöðugleika. Þetta er hugmyndafræði til jafns við að vera hagfræði. Að Ísland skuli hafa sett á höft og að nú sé farið að ganga svona vel efnahagslega eftir hrunið er, samkvæmt þessari túlkun, haft til sannindamerkis um að höftin hafi verið rétt. Ísland hefur fengið meira vægi vegna þessa,“ segir Jón.

Ranghugmyndir um Ísland

„Það hefur áhrif á þessa umræðu að mikil andstaða sé við höftin á Íslandi. Margir hafa haft ranghugmyndir um höftin og Ísland og það vekur því athygli að svo mikil samstaða sé um að afnema þau... Hrunið vakti mikla athygli á sínum tíma. Lönd sem setja höft eru yfirleitt í mikilli krísu. Losun hafta sendir því jafnan þau skilaboð að tekist hafi að ná tökum á vanda. Aftur á móti aflétti Kýpur höftum um daginn og það tók enginn eftir því. Því skyldi ekki gera of mikið úr því hvað áætlunin á Íslandi þykir merkileg.“

Nokkur tími mun líða áður en áhrifin koma fram

Jón segir aðspurður að haftaáætlunin veki hóflegan áhuga í Bretlandi. Þeir sem hafi taugar til Íslands eða eigi hagsmuna þar að gæta muni auðvitað sýna málinu áhuga. Hann bendir á að frétt breska útvarpsins, BBC, um haftaáætlunina hafi verið ein mest lesna frétt mánudagsins.

Spurður um áhrifin af losun hafta á íslenskt efnahagslíf segir Jón að nokkur tími, jafnvel nokkur ár, muni líða þar til þau koma að fullu fram

„Mér virðist við fyrstu sýn sem að þetta sé mjög gott plan. Það virðist vera vel undirbúið og vel hugsað. Menn virðast hafa séð fyrir mörg þau vandamál sem gætu komið upp og hafa hannað kerfið þannig að það lágmarki líkurnar á að eitthvað fari úrskeiðis. Þeir sem komu að þessu geta verið mjög stoltir af sinni vinnu. Það að Paul Klemperer [prófessor í hagfræði við Oxford-háskóla] hafi verið fenginn til að hann gjaldeyrisuppboðið vegna aflandskróna sýnir að fólk er tilbúið að leita til þeirra manna sem hafa best orðspor á sínu sviði og nýta þeirra krafta. Oft er tilhneigingin sú að vinna svona verkefni í of þröngum heimi í of þröngum heimi fólks,“ segir Jón.

Joseph Stiglitz
Joseph Stiglitz mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK