„Þurfum fleiri hraðahindranir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundi Framsóknarflokksins í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundi Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir það ekki bara vera sanngjarnt að kröfuhafar föllnu bankanna láti af hendi háar fjárhæðir til íslenska ríkisins, heldur sé það einnig nauðsynlegt. „Öðruvísi geta þeir ekki innheimt hagnaðinn og þeir vissu að hér væru þeir að kaupa sig inn í höft,“ sagði hann og vísaði einnig til orða Lee Bucheit, ráðgjafa íslenskra stjórnvalda, og sagði þetta betra vera en að finna olíu undir fjármálaráðuneytinu.

Þetta kom fram á hádegisverðafundi sem Framsóknarfélagið í Reykjavík efndi til á Grand Hótel í dag þar sem Sigmundur flutti erindi um aðgerðaráætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. 

Sigmundur sagðist ekki hafa áhyggjur af mögulegum málsóknum vegna aðgerðanna og þá ekki heldur af því að upp muni rísa einhvers konar samúðarbylgja með erlendum vogunarsjóðum sem gæti haft veruleg neikvæð ímyndaráhrif á Ísland. „Við erum bara að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja velferð í landinu,“ sagði Sigmundur.

„Meldingar“ um áhuga

Líkt og fjallað hefur verið um kynnti ríkisstjórnin í síðustu viku aðgerðir til losunar fjármagnshafta sem hafa verið við lýði hér á landi í bráðum sjö ár. Í henni felst að slitabúin geta annars vegar farið nauðasamningaleið þar sem þau þurfa að uppfylla svokölluð stöðugleikaskilyrði til þess að geta fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftum og klárað þannig nauðasamningana til þess að fá að flytja fjármagn úr landi. 

Hin leiðin felst í stöðugleikaskatti sem nemur 39% á heildareignir búanna.

Líkt og fram hefur komið hafa hóp­ar stærstu kröfu­hafa slita­búa föllnu bank­anna all­ir lagt til stöðug­leikafram­lag til stjórn­valda, en það er í samræmi við fyrrnefnd stöðug­leika­skil­yrði. Hópurinn hefur lagt til að veitt verði und­anþága frá höft­un­um á grund­velli til­lag­anna.

Vert er þó að hafa í huga að aðeins hluti kröfu­haf­anna er að baki til­lög­un­um. Enn á eft­ir að taka af­stöðu til þeirra á kröfu­hafa­fundi hvers slita­bús fyr­ir sig. Þar þarf 60% kröfu­hafa að samþykkja þær.

Sigmundur vék að þessu á fundinum og sagði að „meldingar“ væru komnar frá kröfuhöfum um áhuga til þess að fara nauðasamningaleiðina og uppfylla gefin skilyrði. Þó ætti eftir að afla samþykkis allra kröfuhafa.

Nauðsynlegt að hólfa af

Aðspurður hvort Íslendingar ættu möguleika á að vera án fjármagnshafta í framtíðinni með íslensku krónuna í notkun sagði Sigmundur að aðstæður til þess að viðhalda stöðugleika væru betri nú en nokkru sinni áður.

Hagkerfið væri orðið fjölbreyttara og sveiflujöfnun meiri. „Hins vegar er ekki víst hvort gjaldmiðlar geti aftur orðið jafn fljótandi og þeir voru á árunum 2005 og 2006 og með sterka hvata til þess að flæða frá einu hagkerfi til annars,“ sagði hann og líkti hagkerfinu við olíuskip sem nauðsynlegt gæti verið að hólfa af til þess að forða frá skipskaða.

„Það þurfa kannski að vera fleiri hraðahindranir,“ sagði hann og bætti við að Íslendingar myndu fylgjast með svipaðri umræðu í Evrópu. „Svarið er já; við getum haft krónu án hafta, en almennt og ekki bara á Íslandi, má búast við meiri kröfum.“

Það var þéttsetið á Grand Hótel í dag.
Það var þéttsetið á Grand Hótel í dag. mbl.is/Árni Sæberg
Sigmundur telur óvíst hvort gjaldmiðlar geti orðið jafn fljótandi og …
Sigmundur telur óvíst hvort gjaldmiðlar geti orðið jafn fljótandi og á árunum fyrir hrun. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK