Skammtaður of naumur tími

Slitastjórn Kaupþings telur að slitabúum föllnu bankanna, sem eru felld undir stöðugleikaskattinn svonefnda, séu of naumt skammtaður tími til þess að klára nauðasamninga á þeim forsendum sem stjórnvöld hafa kynnt.

Bendir slitastjórnin á að ýmsar ytri aðstæður, sem eru ekki á valdi viðkomandi slitabúa, geti haft veruleg áhrif á það hvort umrædd tímamörk séu raunhæf, þ.e. að klára nauðasamning fyrir lok árs 2015.

Þetta kemur fram í umsögn slitastjórnarinnar við frumvarpi fjármálaráðherra um stöðugleikaskatt. Samkvæmt haftaáætlun ríkisstjórnarinnar þurfa slitabú föllnu bankanna að uppfylla svokölluð stöðugleikaskilyrði og ljúka í kjölfarið nauðasamningum fyrir lok árs 2015. Annars leggst á þau stöðugleikaskattur, sem mun nema 39%.

Af hálfu slitastjórnar Kaupþings er á það bent að umrædd skattheimta eigi sér ekki fordæmi hvað varðar skatthlutfall. Sú skattlagning komi jafnframt til viðbótar annarri skattlagningu sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð sæta nú þegar, til að mynda bankaskattur sem greiðist sem hlutfall af skuldum slíkra fyrirtækja og sérstakur fjársýsluskattur.

Þá sé um að ræða skattheimtu sem sé ákvörðuð eftir að viðkomandi félög eru tekin til slitameðferð og sé látin njóta forgangs af eignum slitabúanna umfram almenna kröfuhafa.

Leggur slitastjórnin til að 2. gr. frumvarpsins verði breytt á þá leið að kveðið sé á um að fjármálafyrirtæki í slitum teljist ekki skattskyldur aðili hafi krafa um staðfestingu nauðasamnings verið móttekin af héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtækið á varnarþing fyrir 31. desember 2015, enda þó endanlegur úrskurður héraðsdóms eða Hæstaréttar um staðfestingu nauðasamnings liggi ekki fyrir fyrr en eftir þennan dag, 31. desember.

Að öðru leyti áskilur slitastjórnin sér allan rétt varðandi fyrirhugaðan stöðugleikaskatt, þar með talið að láta reyna á lögmæti hans fyrir dómi verði frumvarpið að lögum og komi til álagningar skattsins á Kaupþing.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK