Heildarsala svokallaðra hljóðrita, þ.e. geisladiska, hljómplatna og stafrænna skráa, nam 430 milljónum á síðasta ári, samanborið við tæpar 470 milljónir árið á undan. Mikill samdráttur mælist á sölu geisladiska en aukning hefur orðið á stafræna sviðinu og einnig sölu hljómplatna, sem þó eru afar lítill hluti markaðarins.
Eiður Arnarsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra hljómplötuútgefanda, segir að þróunin sé ekki góð í þessum efnum. „Íslensku tónlistarmennirnir bera minna úr býtum en áður. Geisladiskasalan var notuð til að standa undir kostnaði við útgáfuna og því sem henni tengist. Verslanirnar eiga einnig undir högg að sækja, til dæmis hætti Skífan á þessu ári. Þeir sem græða helst á þessu breytta ástandi eru tónlistarveiturnar og einnig eru erlendu rétthafarnir að auka við sig í sölunni milli ára.“
Eiður segir að streymisþjónustan valdi því að rétthafar fái minna fyrir sinn snúð. „Það er hægt að miða við að hver spilun á lagi skili rétthöfum um einni krónu þegar um streymi er að ræða. Í gamla heiminum, þar sem geisladiskurinn réð ríkjum, þá skilaði eitt selt eintak rétthöfum um 1.500 krónum. Ef það eru 15 lög á plötu þá þarf neytandinn að hlusta 100 sinnum á hana á Spotify til að jafna stöðuna milli þessara tveggja leiða.“
Eiður bendir einnig á að tvær tónlistarveitur séu ráðandi hérlendis, annars vegar Tónlist.is og hins vegar Spotify. Síðarnefnda fyrirtækið hafi komið hingað til lands fyrir rúmum tveimur árum og þá hafi hlustun á útlenda tónlist komið meira upp á yfirborðið. „Með tilkomu hennar hefur aðgengi að tónlistinni bæði aukist og svo er neyslan komin upp á yfirborðið. Hún er ekki lengur bundin við Youtube eða ólöglegt niðurhal. Það er jákvætt því þetta skilar rétthöfunum tekjum,“ segir Eiður.