Íslensk barnaföt vekja lukku í Japan

Gréta Hlöðversdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri As We Grow barnafatamerkisins.
Gréta Hlöðversdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri As We Grow barnafatamerkisins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á rúmum þremur árum er íslenska barnafatamerkið As We Grow orðið þekkt á alþjóðamarkaði og fæst nú auk Íslands í tíu löndum. Áherslan er lögð á Asíumarkað þar sem mikil eftirspurn er eftir vörunum í Japan og Suður-Kóreu.

Fyrirtækið var stofnað árið 2012 af Grétu Hlöðversdóttur, framkvæmdastjóra, og hönnuðunum Maríu Th. Ólafsdóttur og Guðrúnu Rögnu Sigurjónsdóttur. Kveikjan að stofnuninni var peysa sem var prjónuð af reykvískri móður undir lok sjöunda áratugarins og hefur nú verið notuð af níu börnum.

Kjóll verður peysa

Peysan gekk á milli þriggja systkina og síðar barna þeirra og varð uppáhaldsflík allra. Barnafatamerkið As We Grow er í þessum anda. Sérstaða fatnaðarins felst í sniðum og efnum sem leyfa hverri flík að vaxa með barninu, og koma síðar öðrum börnum að góðum notum. Gréta bendir á að hver flík sé hönnuð með þetta í huga og bætir við að það krefjist töluverðrar útsjónarsemi að gæta þess að flíkin verði eins falleg með uppábroti eða ekki, og að kjóll verði jafn fallegur sem peysa, þegar barnið stækkar

Þannig kemur ein As We Grow peysa í stærðinni 6 mánaða til 18 mánaða í staðinn fyrir fjórar stærðir. Þegar barnið loks vex upp úr flíkinni er hugmyndin að flíkin gangi barn fram að barni og sé þannig í notkun í 10 ár.

Gréta bendir á að þegar tekið sé tillit til þessa, að flíkin endist lengur, sé verðmunurinn milli ódýrari barnafata líkt og í H&M og As We Grow fatnaðar ekki ýkja mikill.

Hún segir fyrirtækið vera með sterka umhverfis- og siðferðisvitund. Framleiðslan er úr náttúrulegum hráefnum; alpaca ull og lífrænni bómull. Allir birgjar og framleiðendur eru þá með viðurkenndar vottanir er varða samninga við starfsfólk og vinnuumhverfi. Notast er við verksmiðjuframleiðslu, handprjón og handsaum. Allir garnafgangar eru nýttir þannig að engu er hent.

Fötin eru saumuð í Perú þar sem ekki tæknin til framleiðslunnar er ekki til staðar á Íslandi. Gréta vonast þó til þess að hægt verði að flytja saumaskapinn til Íslands í framtíðinni.

Stór í Japan

Á síðasta ári var um sjötíu prósent sölunnar á Íslandi og þrjátíu prósent á erlendri grundu. Að sögn Grétu lítur nú allt út fyrir að salan á þessu ári verði til helminga á Íslandi og erlendis. „Markmið okkar til næstu ára er að snúa sölunni við, auka hana í 80 prósent erlendis á móti 20 prósent hér á landi,“ segir hún.

Fyrirtækið fékk á dögunum tveggja milljóna króna styrk frá Hönnunarsjóði til þess hjálpa því að fót­festu á japönsk­um markaði. Í því felst að fyrirtækið mun taka þátt í alþjóðlegu barnafata­sýn­ing­unni Playtime Tokyo frá 25. til 27. ág­úst 2015 í þeim til­gangi að kynna og markaðssetja barnafa­talín­una í Jap­an. Þá er ætlunin að fara á aðra sýningu síðar á árinu. Gréta segir mikinn kostnað fylgja því að fara á sýningar sem þessa og var styrkurinn því nauðsynlegur til þess að stuðla að vexti fyrirtækisins.

Mikill áhugi hef­ur verið á vör­un­um í Asíu og var meðal annars birt um­fjöll­un um vörumerkið í einu virt­asta barnafata­blaði Jap­ans, MILK, þar sem það var nefnt eitt af 100 áhuga­verðustu alþjóðlegu barnafata­merkj­un­um í dag.

Gréta segir Jap­an­i vera mjög hrifna af stíl­hrein­um eig­in­leik­um As We Grow og að þeir hafi hælt lita- og hrá­efn­is­notk­un ásamt því að finn­ast mikið til þess koma að vörumerkið sé ís­lenskt. Hún bendir á að fæðingartíðni sé afar lág í Japan þar sem konur eignast aðeins um eitt barn að meðaltali og því leggi Japanir mikið upp úr því að fá allt það besta fyrir barnið.

Aðspurð hvort stefnt sé á útrás á fleiri markaðssvæðum segir Gréta að því séu svosem engin takmörk sett, en þó segist hún ætla að einbeita sér vel að þeim svæðum sem fyrirtækið er nú þegar að hasla sér völl á, áður en stefnt verður á önnur mið.

Starfsmaður Vogue bambini blaðsins heldur á nýjustu vöru As we …
Starfsmaður Vogue bambini blaðsins heldur á nýjustu vöru As we grow, þ.e. Mountain peysunni, sem er væntanleg í haust, en hún valdi hana sérstaklega fyrir blaðið. Mynd/As We Grow
Þessi peysa, er kallast Color Block, er mest selda vara …
Þessi peysa, er kallast Color Block, er mest selda vara fyrirtækisins.
Eigendur As We Grow: María, Guðrún og Gréta.
Eigendur As We Grow: María, Guðrún og Gréta.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK